Ákvörðun órg fjölgi forsetaefnum

 

Sú ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar að bjóða sig ekki fram til forseta enn eitt kjörtímabilið hefur  hvatt þá landsmenn sem voru „volgir“ gagnvart framboði til að láta vaða. Færri hefðu farið í slag við sitjandi forseta ef Ólafur hefði takið aðra ákvörðun en þá sem hann upplýsti í gær.

Um þetta eru tvö hugsanleg forsetaefni sammála um sem Hringbraut hefur rætt við.

Bæði kjósa þau þó nafnleynd. Flestir  eru varir um sig í yfirlýsingum nú fyrstu dagana eftir að ÓRG kynnti ákvörðun sína. Ljóst er þó að ýmsir hópar bæði hugsjónafólks og valdakjarna eru að vinna sína vinnu, enda  líta fæstir svo á sem embættið sé valdalaust. Málskotsrétturinn til þjóðarinnar er aðhald og valdatæki í senn auk annarra áhrifa.

Andri vitnar í kvennahreyfinguna

Andri Snær Magnason rithöfundur segir í Fréttablaðinu að hann útiloki ekki framboð. Hann vitnar í orð kvennahreyfingarinnar um að þora, geta, vilja.

Í viðtalinu ræðir hann mikilvægi þess að forsetaembættið nýtist náttúruvernd sem er að nokkru leyt andstæða við áherslur sitjandi forseta því Ólafur Ragnar hefur fremur ítrekað nýtingu orkunnar. Hringbraut sagði fyrst fjölmiðla frá því á árinu sem leið að Andri Snær væri að skoða málið og að margir hefðu skorað á hann.

Sömu sögu er að segja um Katrínu Jakobsdóttur. Hún útilokar enn ekki neitt og er gríðarþrýstingur á að hún fari fram eins og Hringbraut greindi nýverið frá.

Þá er Salvör Nordal nefnd.

Sem og Halla Tómadóttir.

Einnig Hrannar Pétursson.

Þá hefur Jón Gnarr skipt um skoðun, áður hafði hann sagt útilokað að fara fram en í viðtali við DV sagðist hann vera að spá í spilin.

Hringbraut sagði einnig fyrst fjölmiðla frá hugsanlegu framboði Stefáns Jóns Hafstein sem er að hugsa málið.

Þá hefur Þorgrímur Þráinsson  sagt að hann muni með 95% vissu fara fram.

Elísabet Jökulsdóttir rithöfundur hefur tekið ákvörðun um að fara fram, segir í frétt Rúv.

„Við sem erum að spá í þetta sjáum auðvitað meiri möguleika á að breyta Íslandi fyrst að fyrir liggur núna að Ólafur hættir. Næstu vikur fara í að skoða þetta í grunninn,“ segir eitt „heitu nafnanna“ í samtali við Hringbraut.

Sigurvegari kjörinn með fáum atkvæðum?

Vigdís Finnbogadóttir var kjörinn forseti með aðeins um þriðjung atkvæða.

Því fleiri sem bjóða munu sig fram, því líklegra er að fylgið dreifist.

En hverjir eiga mestan séns? Að jafnaði kemur forseti Íslands úr vinstri sinnuðu baklandi þótt dæmi séu um að forseti snúist svo til hægri – eins og nefnt hefur verið um Ólaf Ragnar Grímsson. Menntun, tungumálakunnaátta, sjarmi, vit, ferill og hugsjónir ráða vitaskuld miklu. Margir segja: „Nú vil ég sjá börn á Bessastöðum“ og er þar átt við börn nýs forseta. Kannski verður krafan sú að kjósa ungan forseta sem andstæðu við það sem þjóðin hefur haft um skeið.

Manndómur undir radar?

Í öllu falli er ljóst að baráttan um Bessastaði er hafin. Þótt enn sem komið er fari hún að mestu leyti fram „undir radarnum“ eins og einn líklegu framjóðendanna orðaði það.

Hitt heyrðist einnig þegar fréttaskýringin var unnin að það hefði sýnt hugrekki hjá því hugsjónafólki sem telur eig eiga erindi á Bessastaði ef það hefði tilkynnt sig til leik áður en Ólafur Ragnar flutti ávarp sitt í gær, áður en ákvörðun hans lá fyrir.

„Það hefði sýnt manndóm,“ segir einn viðmælenda.

(Þessi fréttaskýring Björns Þorlákssonar fyrir Hringbraut birtist fyrst í Kvikunni)