„Sú leið hefur ekkert verið rædd. Það hefur auðvitað verið fjárfest mikið í Akureyrarflugvelli og í markaðssetningu á vellinum, sem millilandaflugvelli. Það er því eðlilegt að láta reyna á þá vinnu til hins ítrasta, enda brýnt hagsmunamál landshlutans að fá fleiri ferðamenn beint inn á svæðið,“ segir Logi Már Einarsson, bæjarfulltrúi á Akureyri og formaður stjórnar Eyþings.
Hringbraut bar undir Loga að ýmsir Akureyringar virðast hafa gefist upp á þeirri hugmynd að hægt sé að sinna millilandaflugi samkvæmt fastri áætlun til og frá Akureyri vegna lendingarskilyrða í þröngum Eyjafirðinum. Er nú rætt af meiri alvöru en áður meðal heimamanna hvort rétt væri að skerpa fókusinn á beint flug á Aðaldalsflugvöll sem er skammt frá Húsavík um 85 km frá Akureyri. Lengi hefur það reynst Akureyrarbæ keppikefli að fá beint millilandaflug til Akureyrar. Tilraunir hafa verið gerðar með beint fast millilandaflug frá Akureyri ti útlanda. Sú lengsta stóð yfir þegar Air Greenland flaug nokkuð lengi reglulega milli Akureyrar og Kaupmannahafnar. Síðan eru liðin nokkur ár og lítið gengið. Norðanmönnum svíður þótt þeir samgleðjist einnig, margfalt fleiri en Austlendingar eru, að beint flug muni hefjast frá Egilsstöðum næsta sumar. Eftir því sem Hringbraut kemst næst er ekki fyllilega tryggt að flogið verði beint milli Akureyrar og útlanda næsta sumar.
Eftir að vél Primera hætti við lendingu frá Portúgal í síðustu viku og farþegar sem hugðust njóta þess að vera komnir heim 30 mínútum eftir lendingu þurftu að hírast í rútu frá Keflavík til Akureyrar heila nótt er eins og umræðan hafi breyst í bænum. Slæmt skyggni kom í veg fyrir að hægt væri að lenda flugvélinni en hún sveimaði ofan bæjarins í 45-55 mínútur að sögn farþega eins og Hringbraut hefur greint frá. Farþegi segir að beggja megin Akureyrar hafi verið bjart en vegna hins þrönga Eyjafjarðar og fjalla á báða bóga er aðflug ekki á færi óreyndra flugmanna.
Benedikt Sigurðarson, framkvæmdastjóri Búseta á Akureyri, ferðast mikið flugleiðis. Hann tengir við frétt Hringbrautar á facebook og skrifar: „Akureyrarflugvöllur er erfiður - aðflug og fráflug ekkert til að hafa í flimtingum fyrir flugstjóra óvana vellinum (á þotum) jafnvel þótt veðurskilyrðin séu í lagi á jörðu niðri. Við eigum að umgangast þessar staðreyndir af varúð og virðingu og þakka fyrir að fyllsta öryggis sé gætt. Kannski er þetta sá flugvöllur sem brýnast er að flytja A.m.k. hlakka ég til þegar Vaðlaheiðargöng opna og leiðin til austurs verður greiðari og öruggari í flestum vetrarveðrum,“ skrifar framkvæmdastjórinn.
Eru orð Benedikts sögð nokkuð dæmigerð fyrir það sem í eyru blaðamanns Hringbrautar hefur verið kallað „skynsamlegt undanhald“.
Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri, segir aðspurð hvort rétt sé að horfa meira til Húsavíkur þ.e. Aðaldals hvað varðar innanlandsflug: „Já mér finnst það vel koma til greina. Við erum auðvitað að hugsa um millilandaflug inn á svæðið og það þarf alls ekki að vera bundið við Akureyrarvöll.“
Ummæli Sóleyjar eru eftirtektarverð í lljósi þess að áður var talið að hrepparígur milli byggðalaga gæti komið niður á farsælli lausn til framtíðar. Þá er rétt sem fram kemur í orðum Loga Más, formanns Eyþings að ofan, að miklum fjármunum hefur verið varið til Akureyrarflugvallar síðastliðin ár. Á móti kemur að þær fjárfestingar munu nýtast burtséð frá tíðni alþjóðafluga frá Akureyri.
„Án þess að ég ætli mér að leggja út í einhverja verkfræðilega loftfimleika þá skilst mér að flugvöllurinn við Húsavík beri ekki stórar þotur og því þyrfti eflaust að byggja hann upp frá grunni. Það gæti reynst mjög dýrt. Hins vegar er þetta á endanum bara tæknileg útfærsla og langbest að sérfræðingar finni út hver eru bestu heildaráhrif fyrir svæðið. Og hver veit þá hvað lengri framtíð ber í skauti sér. Aðalatriðið er að sjálfsögðu að svara því hvaða skref eru líklegust til þess að skila okkar landshluta áfram veginn,“ segir Logi Már, formaður stjórnar Eyþings.
Hann bætir við: „Með bættum samgöngutengingum, en ekki síður með mikilli þíðu í samskiptum Eyfirðinga og Þingeyinga gætu ólíklegustu samstarfsverkefni þessara aðila litið dagsins ljós á næstu árum. Við skulum því aldrei útiloka neitt!“
(Þessi fréttaskýring Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á Hringbraut.)