Áhlaupið hefði tekist ef björn bjarnason hefði ekki beitt sér

Fyrr í vikunni kom út skýrsla nefndar undir forystu Björns Bjarnasonar fyrrum ráðherra um kosti og galla aðildar Íslands að innri markaði Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn. Hér er um að ræða afar vandað og mikið verk.

Þingmenn Miðflokksins höfðu frumkvæði að því að Alþingi samþykkti beiðni um þessa skýrslu. Í aðfararorðum formanns nefndarinnar kemur fram að beiðnin tengdist umræðum og deilum í Noregi um þriðja orkupakkann. Sú umræða var síðan flutt hingað heim. Öll efnisatriði þeirrar umræðu snerust í raun og veru um aðild Íslands að innri markaði Evrópusambandsins.

PRÓFSTEINN Á AÐILDINA AÐ INNRI MARKAÐI EVRÓPUSAMBANDSINS

Andstaðan við þriðja orkupakkann byggðist alfarið á popúlískri aðferðafræði. Ekki er ofsagt þótt staðhæft sé að þar var á ferðinni öflugasta áhlaup popúlista síðan deilurnar um Icesave stóðu sem hæst. Ljóst er að ætlunin var að skapa óvissu, ótta og efa um aðildina að innri markaðnum.

Miðflokkurinn og Morgunblaðið höfðu forystu um fjaðrafokið. Segja má að þetta hafi verið prófsteinn á það hvort aðild okkar að innri markaði Evrópusambandsins stæðist þaulskipulagða árás popúlista.

RÍKISSTJÓRNIN VAR MÁLEFNALEGA BERSKJÖLDUÐ

Ríkisstjórnin var málefnalega berskjölduð. VG hélt sig til hlés í umræðunni. Framsókn var efnislega á bandi Miðflokksins og tók því ekki til varna. Flestir þingmenn Sjálfstæðisflokksins voru í klípu. Þeir höfðu sjálfir plægt jarðveginn fyrir atlögu Morgunblaðsins og Miðflokksins með því að hafa árum saman farið fremstir í þeirri fylkingu sem alið hefur á tortryggni í garð Evrópusambandsins.

Forystumenn allra ríkisstjórnarflokkanna töluðu frá byrjun um að framtíð Íslands byggðist á tvíhliða samningum en ekki fjölþjóðasamvinnu. Jafnframt héldu þeir því á lofti að brexit skapaði stórkostleg tækifæri fyrir Ísland.

Af þessum sökum mætti áhlaup Morgunblaðsins og Miðflokksins gegn þriðja orkupakkanum litlum hindrunum í byrjun. Stuðningur Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata skapaði þrýsting en hafði ekki úrslita áhrif á framgang mála í stjórnarflokkunum. Málefnaleg framganga þessara flokka er þó vafalaust ein ástæðan fyrir mikilli fylgisaukningu þeirra.

ENGINN TVÍHLIÐA SAMNINGUR SKILAR SAMA ÁVINNINGI OG FJÖLÞJÓÐASAMVINNA Á INNRI MARKAÐI EVRÓPUSAMBANDSINS

Björn Bjarnason gekk fram með mestum þunga innan Sjálfstæðisflokksins í málefnalegri vörn fyrir EES-samninginn og þá fjölþjóðasamvinnu sem felst í aðildinni að innri markaðnum. Málflutningur hans byggðist á yfirgripsmikilli þekkingu og skýrum skotheldum rökum. Mitt mat er að áhlaup Miðflokksins og Morgunblaðsins hefði að öllum líkindum tekist ef hann hefði ekki beitt sér af þeim mikla þrótti og þunga sem raun ber vitni.

Innan Sjálfstæðisflokksins voru þær Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir einnig sterkir málsvarar. Utanríkisráðherrann tók svo til kröftugra varna gegn áhlaupinu undir lokin.

Nefnd Björns Bjarnasonar skilar nú  þeirri niðurstöðu að enginn tvíhliða samningur geti skilað þeim ávinningi sem fjölþjóðasamvinna á innri markaði Evrópusambandsins hefur gert.

POPÚLISMINN LAUT Í LÆGRA HALDI FYRIR HEFÐBUNDINNI RÖKRÆÐU 

Kjarni málsins er sá að þessi stórsókn popúlista rann út í sandinn.  Þetta er skýrt dæmi um það að innantóm slagorð, getsakir og samsæriskenningar standast ekki málefnaleg rök, sem byggð eru á þekkingu og yfirvegun.

En allt þetta upphlaup sýnir líka að til þess að hafa betur í viðureign af þessu tagi verða menn að afla sér þekkingar og vera reiðubúnir til þess að ganga á hólm við popúlismann og verja þeim tíma og nota þá orku sem til þarf í rökræður. Það dugar ekki að sitja á girðingunni þegar næsta lota hefst.