Margir vildu vart trúa sínum eigin augum og eyrum þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lýsti því yfir að hann ætlaði sér að ganga aftur í pólitík. Hann virðist vera búinn að gleyma því hvers vegna hann hrökklaðist úr embætti forsætisráðherra í apríl á þessu ári, fyrir einungis 4 mánuðum. Þeir stjórnmálamenn sem treysta á gullfiskaminni kjósenda lenda yfirleitt í ógöngum og ganga á vegg fyrr eða síðar. Það virðast ætla að verða örlög Sigmundar því kjósendum er ekki alls varnað.
Ljóst er að kjósendur vilja ekki taka við honum eftir Tortólahneykslið. Fólk veit að hann leyndi mikilvægum upplýsingum um stóreignir þeirra hjóna í skattaskjólum. Það var ekki að ástæðulausu að hann varð að víkja og annar maður settist í stól forsætisráðherra. Hefði það ekki gerst voru dagar ríkisstjórnarinnar taldir. Fjölmennustu mótmæli sögunnar sýndu svo ekki varð um villst að ekki yrði unað við óbreytt ástand. Krafist var kosninga strax en stjórnarflokkunum tókst að lægja öldur með því að ýta Sigmundi Davíð út úr ríkisstjórninni og lofa því að gegnið yrði til kosninga í haust, kjörtímabilið stytt um einn vetur.
Nú stormar Sigmundur Davíð fram á völlinn og hrellir flokksmenn sína með því að hann ætli ekki að víkja sjálfviljugur sem formaður Framsóknar. Hann gengur einnig þvert á margítrekaðar yfirlýsingar forsætisráðherra og fjármálaráðherra um að kosningar muni fara fram í lok október. Sigmundur segir að ekkert liggi á að kjósa fyrr en næsta vor. Þessi staða er snúin og vonlaus fyrir Framsókn og reyndar alla ríkisstjórnina.
Enginn kostur er góður fyrir Framsókn. Haldi Sigmundur áfram sem formaður verður mjög á brattann að sækja í komandi kosningum. Verði hann felldur með átökum er staða flokksins einnig mjög veik.
Haldi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson að hann hafi styrkt stöðu sína með því að vera ekki viðstaddur innsetningu forseta Íslands þann 1. ágúst sl. þá er það mikill misskilningur hjá honum. Eftir fjarveru hans var tekið. Ekki svo að skilja að hans hafi raunverulega verið saknað heldur hafa formenn flokka ríkari skyldur en aðrir þegar kemur að athöfnum af þessu tagi. Sigmundur skaðaði engan nema sjálfan sig með þessari háttsemi. Hann sýndi þann hroka og dónaskap sem því miður hefur einkennt hann um of.
Afturgöngur eru þekktar úr íslenskum bókmenntum. Aldrei hafa þær verið velkomnar. Pólitískar afturgöngur eru engu betri en aðrar. Þeim verður heldur ekki tekið vel. Sigmundur Davíð mun komast að því.