\"Það er ekki langt síðan Sigmundur Davíð lýsti því yfir að verðtryggð íslensk króna væri sú sterkasta og stöðugasta í heimi. Nú vill hann fá þjóðina með sér gegn þessum sama gjaldmiðli og afnema verðtrygginguna.\"
Þetta sagði Benedikt Jóhannesson, útgefandi Frjálsrar verslunar og ritstjóri Vísbendingar í Ritstjórunum á Hringbraut í nýliðinni viku þar sem gjaldmiðilsmálin voru rædd í þaula ásamt öðrum fréttamálum sem hafa verið efst á baugi undanliðna daga, en Fanney Birna Jónsdóttir, aðstoðarritstjóri Fréttatímans var að auki gestur í þættinum. Benedikt sagði svona tal ráðherrans í takti við annað skrýtið og órökrétt sem kæmi frá ríkjandi stjórnarherrum.
\"Undirrót vandans er verðbólga og óstöðugleiki sem hefur rænt krónuna og rýrt hana trúverðugleika. Hún þarf á allri hjálp að halda. Óverðtryggð er hún alltof veik til að lifa,\" sagði Benedikt og hélt áfram: \"Í þessu ljósi er athyglisvert að skoða hvaða lán fólk er að taka. Nú um stundir er miklu algengara í ljósi þeirra kjara sem bjóðast að það velji verðtryggð lán heldur en óverðtryggð. Og hvað gerist þá ef verðtryggðu lánin hverfa,\" spurði Benedikt og var snöggur til svars: \"Háu vextirnir hverfa ekki. Þeir hækka bara.\" Og þar með minnti hann á þau augljósu sannindi að vextir eru miklu hærri hér á landi af þeirri einföldun ástæðu að gjaldmiðillinn lifir það ekki af að vera einn og berskjaldaður. Veik króna þrifist ekki án hás kostnaðar, hvort heldur það væri kallað vextir eða verðtrygging.
En vissulega væri hægt að gambla með svona óstöðugan gjaldmiðil - og það hefðu menn gert: \"Fyrir hrun tóku margir lán í erlendum gjaldmiðlum og greiddu um tíma lægri vexti, en vegna óstöðugleika krónunnar þá kom það eftirminnilega í bakið á þeim hinum sömu í hruninu. Þarna er þessi veika og sveiflukennda króna alltaf undirliggjandi vandi og mikill áhættuvaldur.\"
Benedikt sagði að ágreiningurinn á milli stjórnarflokkanna væri líklega hvergi jafn djúpstæður og þegar kæmi að verðtryggðri eða óverðtryggðri krónu. Sjálfstæðismenn sæju afleiðingar af afnámi hennar, framsóknarmenn ekki - og hann var þar með spurður hveð myndi gerast fyrir venjulegt fólk ef verðtryggingin yrði afnumin?
\"Þá mega menn ekki vera með verðtryggð lán til frambúðar,\" svaraði hann til að lægi beinast við: \"Þá fara allir í óverðtryggð lán sem þýddi að vextir myndu hækka mjög mikið með hækkandi verðbólgu. Vaxtabyrði fólks frá degi til dags myndi hækka umtalsvert - og það gerði það að verkum að eftirleiðis yrði mun erfiðara fyrir ungt fólk að eignast íbúð frá því sem nú er.\"
Ritstjórana má sjá hér á vef stöðvarinnar, bæði í heild sinni og styttri klippum, en þátturinn er að vanda frumsýndur klukkan 21:00 á þriðjudagskvöldum.