“Sterk staða þjóðarbúsins og styrking krónunnar að undanförnu hefur skapað tækifæri til tafarlauss afnáms hafta.” Þetta sagði Sigurður Hannesson í grein sem Fréttablaðið birti í liðinni viku.
Sigurður er fyrrverandi varaformaður framkvæmdahóps um losun hafta og af mörgum talinn helsti höfundur þeirrar stefnu sem unnið var eftir á síðasta kjörtímabili þegar mikilvæg skref voru stigin til losunar gjaldeyrishaftanna. Þvi er alveg óhætt að taka mark á orðum Sigurðar um haftamálin.
Náttfari tekur undir orð Sigurðar og segir: Það er ekki eftir neinu að bíða. Eftir hverju er ríkisstjórnin og Seðlabanki Íslands eiginlega að bíða? Ætla menn að horfa upp á söguna frá árunum 2007 og 2008 endurtaka sig? Upptakturinn að bankahruninu haustið 2008 var einmitt alltof sterk króna og óhóflegir stýrivextir eins og við er að fást núna.
Stjórnmálamenn eru því miður á villigötum í umræðu um styrkingu krónunnar og afnám hafta. Bjarni Benediktsson var í viðtali við Morgunblaðið um helgina. Þar virðist hann vera mun uppteknari af því að viðra skattlagningu á ferðaþjónustuna, sem hefur skapað allan hagvöxtinn í landinu hin síðari ár og dregið þjóðina upp úr volæði hrunsins öðrum fremur, en að tala up hinn raunverulega vanda sem eru gjaldeyrishöftin og allt of háir stýrivextir seðlabankans.
Bjarni er með málefni Seðlabanka Íslands á sinni könnu. Nú ætti hann að láta til sín taka þar á bæ og beina bankanum inn á réttar brautir. Ekki veitir af, því svo virðist sem yfirstjórn seðlabankans sé ekki í neinum tengslum við íslenskan veruleika eins og því miður hefur oft gerst áður. Ekki síst í aðdraganda hrunsins árið 2008.
Nú eru allar forsendur fyrir því að ganga strax til verks og afnema höftin samhliða því að stórlækka vexti. Gjaldeyrisvarasjóður er nægur til að mæta því útstreymi sem væntnlega yrði. Ferðaþjónustan og aðrar útflutningsgreinar munu skapa áframhaldandi innflæði gjaldeyris sem er mikið gleðiefni.
Þegar gjaldeyrishöftin verða felld niður, munu lífeyrissjóðir, sjóðir í bönkum, vátryggingafélög, bankar og einkafjárfestar fara með fjármuni úr landi í stórauknum mæli. Sama gildir um aflandskrónueigendur sem enn eru fastir á Íslandi með eigur sínar. Um leið og þetta gerist mun íslenska krónan veikjast og betra jafnvægi ætti að komast á verð erlendra gjaldmiðla. Núverandi aðstæður eru hættulegar og skaðlegar. Það gengur ekki að ein evra sé metin á 113 íslenskar krónur. Gengið þyrfti að vera kringum 130 eða meira til þess að útflutningsgreinar geti búið við eðlilegar aðstæður hér á landi.
Það er því raunarlegt að heyra formann Sjálfstæðisflokksins tala um að leysa vandann með því að skattleggja ferðajónustuna, sem leysir auðvitað engan vanda. Veikir hins vegar samkeppnisstöðu greinarinnar. Varla er það markmiðið að skaða heila atvinnugrein. Eða hvað?
Náttfari hefði skilið slíkan málflutning betur ef formaður Vinstri grænna hefði haldið þessu fram.
Það eru engin rök fyrir því að afnema gjaldeyrishöftin ekki STRAX eins og Sigurður Hannesson lagði til.
Ferðaþjónustan er ekki vandamálið. Það er Seðalbanki Íslands sem er vandamálið. Ef ríkisstjórnin tekur ekki í taumana, kemur skikk á Seðlabanka Íslands og tryggir afnám hafta og lækkin vaxta – þá verður hún sjálf hluti af vandamálinu.
Ríkisstjórnin hefur ennþá tíma til að ganga i þessi verk. En tíminn er á þrotum. Ríkisstjórnin missir trúverðugleika sinn ef hún bregst nú ekki við af myndarskap og setur afnám hafta i forgang. Afnám hafta og lækkun vaxta sem hægt er að framkvæma strax.
Það er svo tímafrekara og flóknara að koma gjaldmiðlamálum þjóðarinnar í varanlegt horf. Sveiflur á gengi krónunnar að undanförnu hljóta að hafa sannfært alla hugsandi menn um það að íslenska krónan er handónýt og stórhættuleg hagkerfi Íslendinga.
Nú verða menn að láta af þeim þjóðernispopúlisma sem einkennt hefur umræður um gjaldeyrismálin. Við getum ekki haldið úti minnsta og veikasta gjaldmiðli í heimi nema við viljum tortima sjálfum okkur í einhverjum óskiljanlegum bjánaskap.
En byrjum á því að afnema gjaldeyrishöftin strax.