Áfengisumræða, epli og öfgar!

Vinur minn býr í Frakklandi en er íslenskur að upplagi. Hann kom hingað til lands um jólin, fylgdist með fréttum, horfði á íslenskt sjónvarp. Honum fannst umræða um víndrykkju harla neikvæð og benti á að hann hefði ekki tölu á þeim fréttum þar sem talað var við SÁÁ og einhverja alka. Þeir lýstu allir skugga drykkjunnar fyrir svo mörg heimili sem eflaust er rétt. Öl er böl – vín er fyrir svín, stutta útgáfan, segir vinur minn af áfengisumræðu á Íslandi um jólin.

Síðan hefur mikið verið rætt við Kára Stefánsson í flestöllum fjölmiðlum um frumvarp um vín í búðum. Hann finnur því allt til foráttu. Hefur áður sagt að áfengi eyðileggi heilann eins og það sé úníversal lögmál og án undantekninga. Hófdrykkja virðist ekki einu sinni hugmynd.

En hvað með gleðina, afslöppunina, tilbreytinguna sem fylgir gullnu glasi eða rauðu? Hvað með  þá staðreynd að áfengir drykkir eru víðast um heim notaðar til að lyfta hátíðarstundum og ekki einblínt á þá sem misnota áfengi sem álitsgjafa?

Þessi íslensk/franski vinur minn minnti á að epli þykja ágætis ávöxtur þótt finna megi fólk sem hefur drepið sig á að háma í sig epli. Til dæmis ef eplabiti stendur í manni. Sennnilega er líka dæmi um fólk með ofnæmi fyrir eplum. En í umræðu um epli yrðu leiðandi álitsgjafar seint þeir sem hefðu misnotað epli eða meitt sig á þeim.

Það finnst mér svona til umhugsunar...

(Þennan pistil flutti Björn Þorláksson í sjónvarpsþættinum Kvikunni á Hringbraut í vikunni.