Af slysatryggingu ökumanns og eiganda

Slysatrygging ökumanns og eiganda er ein af skyldutryggingum sem kaupa þarf vegna ökutækis.  Ábyrgðartrygging er hin tryggingin og saman standa þær á bak við áhættur sem löggjafinn telur eðlilegt að vátryggja.  Að auki bjóða vátryggingafélögin upp á frjálsar tryggingar, það er vátryggingar sem ekki er skylda að kaupa eins og kaskó og framrúðutryggingu en þær eru ekki til umræðu núna.

Löggjafinn hefur séð áhættuna sem felst í notkun ökutækisins en það er ljóst að bíllinn er eitt okkar hættulegasta verkfæri.  Rúmið er líklega hættulegra en þar látast flestir. 

Notkunarhugtakið er eins og rauður þráður í gengum bifreiðatryggingarnar því ef um notkun á bifreið er að ræða þá verða þessar vátryggingar virkar ef um tjón er að ræða.

Á bernskuárum vátrygginga voru engar tölvur eða tengingar milli mismunandi geira og verkefna eins og fyrirfinnst í dag.  Skírteini var búið til sem innihélt upplýsingar um hið vátryggða með skírskotun í skilmála og utanumhald um iðgjald og tímabil.  Ritvélin var notuð til að allt færi á réttan stað og forprentuð eyðublöð voru notuð til að létta starfsmönnum verkið.

Þegar kemur fram á áttunda áratuginn þá fara vátryggingafélög að tileinka sér nýja tækni með tölvuútprentunum á skírteinum og í stað kortakassans þá færðust sömu upplýsingar inn í geymslur tölvunnar. 

Um það leyti sem þetta er að gerast bætir löggjafinn í og fer að auka vátryggingaverndina fyrir ökumanninn og eiganda ökutækja til að setja hann á svipaðan stað og þann sem verður fyrir tjóni af völdum notkunar ökutækis og er ekki gerandi eða fellur innan þeirrar skilgreiningar að vera í rétti.  Þessi vátrygging, í því formi sem hún er í dag, verður til á níunda áratug síðustu aldar.  Þar sem eigandi ökutækis ber ábyrgð á því þá varð að gera ráð fyrir tveimur einstaklingum í tjóni sem gætu fallið utan skilmála ef slys verður á fólk í bílslysi en það er eigandi ökutækisins og ef annar en hann ekur og veldur. 

Þetta er í fljótu bragði ágætis lausn.  Vátryggingin er gerð upp samkvæmt skaðabótalögunum eins og um ábyrgðartjón sé að ræða og vátryggingafjárhæð þessarar vátryggingar er komin í það form að hún er ekki lengur heftandi þáttur við bótauppgjör.  Við innleiðingu þessarar  vátryggingar þá var vátryggingafjárhæð hennar þannig að ef ökumaður og eigandi voru ekki sami maðurinn og slösuðust báðir illa þá dugði fjárhæðin ekki til að bæta tjónið samkvæmt skilmálum.  Þetta hefur verið lagað.

Ef skírteini er ekki á tölvutæku formi þá finnst mér þetta ágæt lausn.  En spurningin sem ég spyr mig er  ökutækjaslysatrygging eina slysatryggingin sem þörf er á.  Hvers vegna þarf eigandi af ökutæki að slysatryggja einhvern sem er að nota það?  Getur ekki sá sem fær lánað ökutæki slysatryggt sig sjálfur?  Ef ég leigi út ökutæki þarf ég að útvega slysatryggingu fyrir leigutakann?  Ef ég á 10 mótorhjól, öll á númerum og prufa hjól sem er einhverja hluta vegna ekki vátryggt (getur verið vegna geymslu) og ég slasast þá er ég með 10 virkar vátryggingar í skúrnum heima en utan skilmála af því að þetta hjól er ekki vátryggt?  Af hverju er slysatrygging ökumanns ekki skyldutrygging þeirra sem halda á ökuskírteini?

Ég leyfi mér að efast um að þetta sem er viðhaft í dag sé skynsamlegt. 

Slys gera ekki boð á undan sér og það að ákveða þjóðfélagslega að ein tegund slysatburðar sé skylduvátryggð orkar tvímælis.  Ég get ekki betur séð en fyrirhyggja ráðamanna fyrir 30-40 árum hafi verið tæknilegs eðlis eða betur sagt van-tæknilegs eðlis því það var svo flókið að halda utan um hlutina sökum þess að tæknin bauð ekki upp á það.

Í dag erum við með allar upplýsingar um alla ökumenn, allar bifreiðar og allar vátryggingar.   Það er sem sagt mögulegt að skoða hvernig hver og einn bíll er vátryggður og þar fram eftir götunum. 

Þá er spurninging hvers vegna þarf eigandi ökutækis að vátryggja ökumanninn?  Það getur varla verið hlutverk þess sem á bíl að passa afkomu annarra, sérstaklega þegar tjónið er valdið af þeim sem ber ábyrgð og þiggur bæturnar.

Ég skil í miðað við okkar demokratiska þjóðfélag að löggjafinn setji þegnunum reglur um þessi mál enda ljóst að tjón sem er óvátryggt er vandamál fyrir þjóðfélagið þar sem viðkomandi aðilar verða að öllum líkindum birði á öðrum.  Bifreiðatjón eru líklegri en önnur tjón. Ekki hefur tekist að fullnægja þessum rökum þar sem sum tjón utan skilmála slysatryggingar ökumanns og eiganda og eiga ekki kröfu. Dæmi um þetta er ef viðkomandi orsakar tjónið af stórkostlegu gáleysi, við ölvunarakstur eða ef hann er próflaus.  Þá fær viðkomandi engar bætur og ber ábyrgð á tjóninu gangvart þriðja aðila.

Ég tel tjónsatburð á borð við röllt niður Laugaveginn og hrasa um gangstéttarhellu eigi að falla alveg eins innan slysatrygginga sem fólki er skylt að kaupa.  Þ.e. ætti að  falla að sama skapi undir forsjárhyggju löggjafans alveg eins og slysatrygging ökumanns og eiganda.  Forsjárhyggja þarf rökstuðning og sú sem við erum með í dag stenst ekki skoðun. 

Hlutlæg ábyrgð eiganda á ökutæki á að ná yfir tjón gagnvart þriðja aðila ekki slysatryggingu ökumanns.

Ég er þeirrar skoðunar að Alþingi eigi að breyta umferðarlögunum. Breytingin á að vera þannig að ef einstaklingur nær sér í ökuskírteini þá þurfi hann að vátryggja sig fyrir slysi sem hann getur orðið fyrir við aksturinn.  Þetta myndi gera það að verkum að eingöngu þeir sem stunda bifrieðastjórnun eru með ökuskírteini.  Þeir myndu líka geta bætt við sig áhættum sem eru ekki endilega við akstursiðjuna heldur bara hvenær sem er.  Ég væri sem dæmi með skírtieni og tæki alvöru slysatryggingu og ef svo óheppilega vill til að ég slasa mig við eitthvað annað en akstur þá ætti ég von á bótum úr vátryggingunni.  Það væri samningur sem ég hefði keypt af vátryggingafélagi.

Umræðan um það að eiga marga bíla, greiða himinháa vátryggingu, og geta bara notað einn þeirra í einu myndi dvína þar sem eingöngu væri um ábyrgðartryggingu (sem skyldu) á þeim ökutækjum.

Með þessu væru iðgjöld á bílalegubíla miklu ódýrari þar sem ekki væri verið að vátryggja ökumenn umfram það sem gengur og gerist. 

Það er hlutverk ökumannsins að huga að sínum vátryggingum og til að koma í veg fyrir að hann aki óvátryggður þá þyrfti hann að kaupa sér slysatryggingu árlega eins og bílatryggingu til að mega aka bifreið.  Vátryggingin væri í samræmi við væntingar hvers og eins og vátryggingafélögin myndu passa, eins og þau gera í dag varðandi ökutækjatryggingar, að ökumenn aki ekki án vátrygginga.

Að ökumenn slysatryggi sig sjálfir er miklu betri lausn og eigandi ökutækis einnig ef hann er ekki með ökuskírteini.

Smári Ríkarðsson

Tryggja ehf.