Ég lagði á mig í gærkvöld að hlusta á fjögurra ára gamalt útvarpsviðtal við Ólaf Ragnar Grímsson, viðtal sem tekið var degi áður en Ólafur hóf kosningabaráttu sína árið 2012. Sagnfræðingar eru þó á einu máli um að kosningabaráttan hafi hafist þennan dag með þessu viðtali, ekki degi síðar.
Í viðtalinu hjólar Ólafur Ragnar í Þóru Arnórsdóttur, tætir hana í sig svo þungaða að hún gat ekki rönd við reist fyrr en löngu síðar.
Kannanir sýndu á þessum tímapunkti að Þóra hafði forskot á ÓRG. En eftir á að hyggja var það djarft teflt hjá Þóru að fara fram, vitandi að hún yrði óvirk á viðkvæmasta tíma baráttunnar vegna barneignar. Eftir á að hyggja hefði hún líka kosið sér betri ráðgjafa í baráttunni. Eftir á að hyggja var hún kannski ekki konan sem þjóðin vildi sameinast um á Bessastöðum en enginn efar þó að ferill, menntun og glæsileiki Þóru gerði hana að frambærilegum kandídat. En eftir viðtalið við ÓRG var ekki rétta andrúmsloftið fyrir auðmýkt Þóru Arnórsdóttur. Allt breyttist með þessu útvarpsviðtali. Hægrimenn stukku á ÓRG og báru hann í hásæti. Eftir þetta viðtal varð ÓRG forseti sundrungarinnar á Íslandi eins og Styrmir Gunnarsson ritstjóri Moggans hefur komist að orði.
Eftir að ÓRG hafði nýtt tímann í útvarpsviðtalinu fræga til að ráðast á fréttastjóra Rúv, ráðast á eiginmann Þóru sem hann taldi að hefði unnið gegn sér með fréttaskrifum, ráðast á Rúv í heild og vann með því inneign hjá þeim sem fíla Davíð og Vigdísi Hauks, hófst enn óþrifalegri innivinna forsetans í þessu viðtali. Hann flakaði þann hluta þjóðarinnar sem hafði talað fyrir breytingum, rifjaði upp Icesavesigrana sína, hamaðist á sömu möntrunni: Öryggisventill á óvissutímum. Öryggisventill á óvissutímum. Það var hann sjálfur, sagði hann sjálfur.
Það er sama ræðan núna, fjórum árum síðar: Öryggisventill á óvissutímum. En baklandið er mun veikara en fyrir fjórum árum. Fræg er líkingin um One Trick Pony-gaurinn sem flaggar alltaf sama bragðinu, sem þó dugar aðeins einu sinni til að hafa áhrif, eftir það þykir One Trick Pony-gaurinn pínu sorglegur. Fréttaskýrendur hafa ekki heldur nein gögn, engar sannanir um að mjög margir hafi hvatt ÓRG til að bjóða sig fram í 6. skiptið nú eins og hann sagði þegar hann fór fram í 5. skiptið. Kannski voru þetta bara nokkur símtöl við Þórólf Gíslason, kaupfélagsstjóra í Skagafirði? Þar væri þá um að ræða símtöl tveggja öryggisventla. Og hve lengi dugar að hamast á orðinu öryggisventill?
Í dag hefur Kári Stefánsson stigið fram og hvatt ÓRG til að birta persónuupplýsingar sem sanni að hann og Dorrit séu ekki í hópi auðmanna sem hafi tekið sér söðu gegn íslensku efnahags- og velferðarkerfi. Þetta ákall Kára sýnir breytinguna sem orðið hefur á fjórum árum meðal fólks sem hefur áhrifavald. Meira en helmingur þjóðar leit fram hjá sögu og brestum forsetans í kjörklefanum síðast, af því að talið um öryggisventilinn og átökin varð ofan á og tengdist atlögu gegn Rúv. En nú hefur fólki orðið ljóst að ákallið um breytingar fær engan framgang nema skipt verði um skipper á Bessastöðum.
Við bíðum skoðanakönnunar en vel gæti stefnt í spennandi einvígi um Bessastaði. Ekki yrði ég hissa á að sjálfur Ólafur Ragnar Grímsson öryggisventill alheimsins ætti eftir að draga framboð sitt til baka - ef fyrir mun liggja að kannanir sýna að hann gæti tapað kosningunni. Hvattur áfram af Útvarpi Sögu og útgerðarmönnum er Ólafur eins og Davíð. Þeir tveir eiga erfitt með að leggja sjálfa sig undir í dóm almennings ef þeir halda að þeir muni tapa. Til þess eru þeir tveir of miklir egóistar. Ómissandi öryggisventlar og egóistar. Gamlir en ómissandi menn.
Hitt ber að þakka fyrir að ÓRG hefur tekið margar farsælar ákvarðanir og eflaust styrkt stöðu landsins stundum - með sama hætti og hann hefur líka veikt stöðu landsins á öðrum tímum, útrásarforsetinn okkar. Honum má kannski líka þakka fyrir að hafa staðið í lappirnar þegar að því er virðist veikur maður kom hlaupandi inn á Bessastaði með þingrofstilögu fyrir nokkrum vikum - en sagan á þó eftir að dæma þær afferur allar.
Lokaorðin í hinu fjögurra ára gamla en mjög svo endurnýtta viðtali sbr. ræðu forsetans á Bessastöðum í síðustu viku eru efnislega þessi: \"Það ríkir mikið vantraust, það er mikil óvissa, traust á stofnunum er lítið og óvissa ríkir um kvótamálin. Þess vegna verð ég að bjóða mig fram.\"
Nokkru síðar neitaði ÓRG tugþúsundum Íslendinga sem vildu að hann skrifaði ekki undir lög um lækkun veiðigjalda.
Þannig starfa sumir öryggisventlar. Eftir behag.
Björn Þorláksson