Af hverju er ófærð frábært sjónvarp?

Já, það er nú það. Af hverju er Ófærð frábær sjónvarpsþáttur?

Kannski vegna þess að í Ófærð er dregin upp trúverðug mynd af persónum af holdi og blóði. Þar snýst ekki allt um atburðarásina eins og gjarnan verður í þáttum sem koma að vestan.

Í Ófærð þekkjum við mannskepnuna úr daglega lífinu. Og tengjum okkur við hana.

Í Ófærð sameinast persónusögur og samfélagssögur. Valdastrúktúr samfélagsins er annars vegar greindur en einnig saga einstaklingana. Ég spái að við eigum eftir að sjá þetta tvennt fléttast saman með afhjúpandi þætti í framvindu þáttanna.

Svo er leikurinn heilt yfir frábær. Það hefur víða tekist sérlega vel að velja réttu leikarana í réttu hlutverkin. Ilmur tekur mann með sér til Fargo um leið og hún setur upp húfuna. Það er líka fjallað um líf smábæjarins á skemmtilegan og mannlegan máta, en ekki talað niður til íbúanna eins og stundum. Leikstjórnin skilar þessu vel.

Til lasts  leyfi ég mér þó sem fjölmiðlamaður að setja spurningamerki við klisjuna um að fréttafólk (í tilviki gærkvöldsins sjónvarpsfréttakona) þurfi alltaf að vera sálarlausar ófreskjur sem enginn talar vel um. Mín reynsla er að fréttafólk hér á landi sé nærgætið og veiti fólki að jafnaði næði og rými til að rannsaka mál og fara sínu fram – en reyni þó eftir megni að upplýsa eins og vinnan býður okkur gera.

En burtséð frá því smáatriði í raun er Ófærð frábær sjóvarpsþáttur.

Framandi tilfinning að hlakka í hverri viku til næsta þáttar.

En segir líka sitt um hve svelt við höfum verið.

Vonandi er betri tíð í vændum. Ófærð er vísbending um það. Takk Balti.

Þessi fjölmiðlarýni Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)