Með hækkandi sól fylgja ýmis veisluhöld, fermingarveislur, útskriftaveislur og brúðkaup svo dæmi séu tekin. Til að fá góð ráð og frumlegar hugmyndir um veisluhöld ársins fékk Sjöfn Þórðar fjóreykið Elvu Hrund Ágústsdóttur stíllista, Berglindi Hreiðars köku- og matarbloggara hjá Gotterí og gersemar, Viktor Örn Andrésson, landsliðskokk og einn eiganda Sælkerabúðarinnar ásamt Hrafnhildi Þorleifsdóttur blómaskreyti hjá Blómagalleríi til að slá upp fermingarveislu fyrir áhorfendur þáttarins Matur og Heimili þar sem hugsað er fyrir heildarumgjörð veislunnar.
Góður undirbúningur lykillinn
Það sem er mikilvægast þegar kemur að því að halda veislu er undirbúningurinn. Vera búin að ákveða þema veislunnar, hvaða kræsingar á að bjóða uppá og í hvaða formi veislan á að vera. Þá er gott að vera með ákveðið þema sem flæðir út alla veisluna, hvað varða liti, skraut og annað sem gleður bæði gesti og gestgjafa og er lýsandi fyrir þann sem heldur veisluna.
Náttúrulegir litir og lifandi blóm í forgrunni
„Vel dekkað veisluborð er miðpunkturinn í veislunni og því ber að huga vel að því,“ segir Elva sem elskar fátt meira en að dekka veisluborð fyrir hvers kyns veislur. Hrafnhildur tekur í sama streng og fær mjög oft það verkefni að skreyta veisluborð með lifandi blómum. Þegar kemur að því að velja blóm á veisluborð finnst henni mjög fallegt þessa dagana að vera með jarðliti og leyfa náttúrunni að njóta sín. „Þar sem einfaldleikinn mætir náttúrunni er oftast það sem er fallegast og fangar augað,“segir Hrafnhildur sem lagði lokahönd á veisluborðið með Elvu.
Sælkera smáréttaborð og kökukræsingar sem enginn stenst
Þegar kemur að því að velja veitingar er mikilvægt að huga að nokkrum hlutum. „Það er brýnt að huga að aldurssamsamsetningu gestana og huga að vali veitinga eftir því hvaða aldurshópar eru að mæta til að njóta. Til dæmis ef það er mikið um börn þarf að vera með veitingar sem höfða til þeirra,“ segir Viktor Örn sem er sérfræðingur í töfra fram sælkerasmárétti við allra hæfi. „Vert er líka að hafa það í huga að hægt er að kaupa hluta af veitingum af veisluþjónustum og líka gera hluta sjálfur og jafnvel fá mömmu til að gera sína bestu rétti eins og rækjubrauðtertuna,“segir Viktor Örn sem hefur langa reynslu í veisluhöldum. Toppurinn á sælkera kræsingaborðinu er gjarnan kakan sem er oftar en ekki gerð í anda fermingarbarnsins. „Eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að baka köku fyrir veislu sem prýðir þema veislunar og þá koma lifandi blóm sterk inn,“segir Berglind og er annáluð fyrir að slá upp veislum þar sem umgjörðin og þemað er tekið alla leið og upplifun gesta eftir því.
Sjón er sögu ríkari. Missið ekki af veislunni sem fjóreykið fer á kostum í þættinum Matur og Heimili í kvöld klukkan 20.00.