Mjög skiptar skoðanir eru um sjókvíaeldi hér við land eins og reyndar víðast hvar í heiminum. Auðvelt er að styðja þá verðmætasköpun sem felst í fiskeldi en erfitt er að sætta sig við þá áhættu sem sjókvíaeldi hefur í för með sér vegna mengunar og truflunar í náttúrunni. Eðli máls samkvæmt verða alltaf slys þannig að fiskur sleppur úr sjókvíum. Þegar laxar sleppa má gera ráð fyrir því að þeir leiti í nærliggjandi ár og blandist viltum laxastofnum. Það getur valdið sjúkdómum og jafnvel hruni þeirra. Af þessum ástæðum geta orðið óbætanleg slys eins og dæmin frá Noregi sanna en margar af stórkostlegum laxveiðiám Norðmanna eru ekki svipur hjá sjón af þessum sökum. Þess vegna er eðlileg krafa að allt fiskeldi fari fram í lokuðum kerfum úti á sjó eða uppi á þurru landi. Sjókvíaeldi er ekki boðlegt og full ástæða er til að berjast gegn því enda úrelt og hættulegt fyrirkomulag.
En þá koma hagsmunaaðilar til skjalanna og reka áróður fyrir sjókvíaeldi því það er ódýrara í rekstri en öruggu kerfin. Hart er barist fyrir heimildum til að stunda sjókvíaeldi þó öllum ætti að vera ljós sú hætta sem því fylgir. Þá er jafnan beitt þeim rökum að um atvinnuhagsmuni sé að ræða og verðmætasköpun sem ekki næðist ella. Á móti má spyrja hvort umhverfisvernd sé hugtak sem einungis sé til notkunar í hátíðarræðum stjórnmálamanna. Það gleymist einnig í þessari umræðu að mikil atvinnusköpun og verðmætasköpun felst í því að selja laxveiðileyfi og reka alla þá starfsemi sem tengist veiðiám. Eru menn tilbúnir að fórna þeim hagsmunum til að geta haldið áfram og aukið við stórhættulegt og umhverfisspillandi sjókvíaeldi?
Vestfirðingar hafa barist manna harðast fyrir aukningu sjókvíaeldis sem er þegar oðrið mjög mikið á svæðinu. Samtök fiskeldisfyrirtækja stigu stórt skref þegar þau réðu grjótharðan talsmann í þjónustu sína fyrir fáum árum. Þar er um að ræða Einar Kristinn Guðfinnsson, fyrrum þingmann Norð-Vestur kjördæmis. Hann hafði gegnt stöðu sjávarútvegsráðherra og endaði sem forseti Alþingis. Um leið og hann lauk stjórnmálaferli sínum, hófst hann handa við hagsmunagæslu fyrir þessi samtök. Óhætt er að segja að hann hafi gengið fram af mikilli ákefð og barist fyrir stórauknu sjókvíaeldi, einkum á Vestfjörðum. Enginn getur bannað Einari Kristni að starfa á þessum vettvangi en margir velta fyrir sér siðferðislegum spurningum þegar fyrrverandi forseti Alþingis gengur grímulaust til verka og berst fyrir aukningu á umhverfisspillandi starfsemi.
Vegna þessarar stöðu er öll umræða um sjókvíaeldi mun viðkvæmari en ella. Sumir eru mjög hörundssárir þegar vakin er athygli á þeirri mengun og hættulegum náttúruspjöllum sem þessu fylgja. Aðrir halda því fram að hagsmunagæslumenn sjókvíaeldisfyrirtækjanna svífist einskis til að fá hagsmunum sínum framgengt og hafi allar klær úti. Þetta kom greinilega fram nú í vikunni þegar þátturinn Frá degi til dag í Fréttablaðinu gerði grín að Teiti Birni Einarssyni, varaþingmanni Sjálfstæðisflokksins í Norð-Vestur kjördæmi, þegar bent var á að hann væri greinilega í erindrekstri fyrir norska fiskeldismenn í von um aukna upphefð.
Ef allt væri með felldu og málstaður erindreka fiskeldisgreifanna ekki svona eldfimur, hefði varaþingmaðurinn væntanlega látið þessi orð sem vind um eyrun þjóta. En sú varð ekki raunin. Hann stökk til að birti kvörtunargrein í Fréttablaðinu þann 15. janúar þar sem hann reyndi að tína til nokkrar barnalegar ávirðingar. Og svo vék hann að mögulegum ríkisstyrkjum:
„Stjórnendur og eigendur Fréttablaðsins eru nú í dauðafæri á því að komast í skjól ríkisjötunnar með rekstur sinn með frumvarpi menntamálaráðherra um ríkisframlög til fjölmiðla.“ Þá er varaþingmaðurinn að vísa til frumvarps sem gerir ráð fyrir endurgreiðslu á kostnaði fjölmiðla, alls að fjárhæð 400 milljónir króna fyrir alla fjölmiðla landsins. Með þessu er verið að reyna að klóra yfir það klúður stjórnvalda að heimila ríkisfjölmiðli að starfa á samkeppnismarkaði en það tíðkast hvergi á Vesturlöndum – nema hér og í jaðarríkjum Evrópu.
Svo heldur varaþingmaðurinn áfram í grein sinni: „Fólk á Vestfjörðum, sem á allt sitt undir eigin verðmætasköpun, er ekki svo heppið. Ekkert frumvarp er í þinginu sem kveður á um slíkt ríkisframlag til þeirra.“
Teitur Björn Einarsson hefur trúlega ekki heyrt getið um 30 milljarða ríkisstyrki á ári til landbúnaðar á Íslandi. Gera verður ráð fyrir því að bændur á Vestfjörðum fái sinn skerf af ríkisstyrkjum til landbúnaðarins, ekki síður en aðrir bændur í blómlegum landbúnaðarhéruðum sem mörg hver eru í kjördæmi varaþingmannsins. Hann kynnir sér þetta vonandi vel áður en hann velur að svara fyrir sig næst með skætingi um ríkisstyrki.