Þegar fjölmiðlar birta árlegar völvuspár sínar velta margir fyrir sér hver sé höfundur spánna á hverjum fjölmiðli. Gaman er að rýna í það sem sagt er og ekki síður það sem ekki er sagt en gæti átt fullt erindi í vangaveltur um komandi ár.
Þegar Völvuspá Vikunnar er skoðuð varðandi íslenskt athafnafólk er ekki vikið að neinum þeirra sem eru í forsvari fyrir skráð fyrirtæki eða önnur helstu fyrirtæki landsins. Hins vegar virðist völvan hafa mikinn áhuga á örlögum hins fallna forstjóra, Skúla Mogensen, og enn meiri áhuga á framtíð Róberts Wessmann. Um hann segir:
Róbert Wessmann á eftir að ganga áfram ljómandi vel. Hann veit alveg hvað hann er að gera.
Halldór Kristmannsson er opinber forsvarsmaður Birtings, útgáfufélags Vikunnar. Halldór er starfsmaður Róberts og mun standa honum nærri. Lengi hefur verið á sveimi óstaðfestur orðrómur um að Róbert Wessmann sé eigandi Birtings. Félagið tapaði 170 milljónum króna árið 2018 eins og fram hefur komið.
Í Völvuspá Vikunnar er sagt að Vikan og tímarit Birtings haldi velli og Mannlíf haldi áfram. Fréttir úr innsta hring!
Ætli Róbert Wessmann hafi skrifað Völvuspá Vikunnar sjálfur þetta árið?