Vægast sagt er það ótrúverðugt að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, skuli nú vera aðaltalsmaður Íslands á fundum með forystu NATO og vestrænna ríkja vegna þeirra skelfilegu hernaðarátaka sem geisa í Úkraníu.
Við þessar aðstæður hugsa flestir Íslendingar til þess hve mikil gæfa það er fyrir dvergþjóðina Ísland að vera fullgildur aðili að NATO. Ljóst er að þessi 380 þúsund manna þjóð getur ekki haft mikil áhrif á gang mála innan NATO. En við erum fullvalda þjóð og höfum rödd þótt mjóróma sé.
Við þessar aðstæður er það í meira lagi vandræðalegt að forsætisráðherra þjóðarinnar sé formaður í stjórnmálaflokki sem hefur það á stefnuskrá sinni að Ísland gangi úr NATO. Flokkurinn hefur ávallt haft það sem eitt að sínum meginstefnumálum. Forverar Vinstri grænna, Alþýðubandalagið, Sósíalistaflokkurinn og Kommúnistaflokkur Íslands, voru allir svarnir andstæðingar NATO og reyndu að koma af stað borgarastyrjöld á Íslandi árið 1949 þegar Alþingi samþykkti inngöngu Íslands í NATO. Þeir gerðu aðsúg að Alþingishúsinu og grýttu lögreglu og borgaralegt varðlið sem stóð vaktina fyrir utan þinghúsið.
Kjörorð Vinstri grænna og forvera flokksins var lengi vel ÍSLAND ÚR NATO – HERINN BURT! Nú er herinn farinn en Vinstri græn vilja enn ganga úr NATO.
Skyldi Katrín Jakobsdóttir hafa rætt þessa stefnu flokks síns þegar hún heimsótti höfuðstöðvar NATO og ESB í Brüssel fyrir viku? Skyldi hún hafa ítrekað vilja flokks síns til að yfirgefa NATO þegar framkvæmdastjóri NATO fagnaði komu hennar á heimili sínu í Brüssel? Þá sótti hún fund Evrópuríkja í London í gær með leiðtogum nokkurra NATO-ríkja þar sem hún var mynduð í þeirra hópi, skælbrosandi.
Þegar hin óvæntu og skelfilegu átök brutust út í Úkraníu eftir innrás Rússa kom vel í ljós hve mikilvægt er fyrir Evrópuþjóðir að eiga samleið innan NATO og Evrópusambandsins. Þá kristallast sá vandi okkar Íslendinga að við búum nú við ríkisstjórn sem aðhyllist einangrunarstefnu og vill ekki fulla aðild að ESB af ástæðum sem ekki tekst að útskýra. Þá höfum við forsætisráðherra, í boði Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, sem stýrir stjórnmálaflokki sem er grjótharður andstæðingur aðildar Íslands að NATO. Þessi staða er ekki aðeins vandræðaleg. Hreint út sagt er hún óboðleg.
Hið minnsta sem hægt er að fara fram á er að ríkisstjórnin sýni umheiminum þá virðingu að senda talsmann sem er hlyntur NATO á fundi bandalagsins en ekki yfirlýstan andstæðing. Er ekki bara best að geyma Katrínu Jakobsdóttur heima á meðan Vesturlönd standa vörð um lýðræðið á móti yfirgangi sovét-veldisins?
- Ólafur Arnarson