Einn af þeim stjórnarkostum sem koma til greina í þeim viðræðum sem standa yfir, er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, VG og Framsóknar. Þá kæmu VG inn sem varadekk fyrir þá stjórn sem kjósendur felldu. Framsóknarflokkur fengi áfram að vera við völd þó þeir hafi misst 11 þingmenn af 19 og verið niðurlægðir af kjósendur. Þeir flokkar sem ætla að bera ábyrgð á áframhaldandi valdatíð Framsóknar, lítilsvirða lýðræði í landinu.
En það vakna fleiri álitamál varðandi þá hugmynd að Sjálfstæðisflokkur myndi ríkisstjórn með VG. Komi til þess má spyrja hvort menn séu búnir að gleyma Landsdómsmálinu. Hvort búið sé að fyrirgefa VG ög öðrum sem níddust á Geir Haarde einum með því að draga hann fyrir Landsdóm og lítillækka hann þannig?
Ætla má að sjálfstæðismenn séu almennt ekki búnir að gleyma þessari ógeðfelldu framkomu sem stýrt var af Steingrími J. Sigfússyni. Ætla sjálfstæðismenn nú að leiða hann inn í ríkisstjórn að nýju og afhenda honum fjármálaráðuneytið? Dreymir þá virkilega um það?
Að margra mati er Landsdómsmálið, sem runnið er undan rifjum VG, mesta hneyksli þingsögu Íslands. Þarna réði hefnigirni för, ásamt mannvonsku og illsku þeirra sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði haldið frá landsstjórninni í 18 ár. Það þurfti bankakreppu á Vesturlöndum sem leiddi til hruns á Íslandi til þess að Steingrímur J. Sigfússon kæmist til valda að nýju á Íslandi. Hann hafði verið ráðherra árin 1988 til 1991 en staðið úti í pólitískum kulda í nær 2 áratugi. Hann kenndi Sjálfstæðisflokknum um það og vildi koma fram táknrænum hefndum. Það voru reyndar kjósendur sem völdu að hafna Steingrími og flokkum hans allan þennan tíma.
Forystumenn jafnt sem almennir flokksmenn Sjálfstæðisflokksins voru óskaplega sárir, reiðir og hneykslaðir yfir því hvernig var komið fram við fyrrum formann flokksins og forsætisráðherra, Geir Haarde. Ætla má að þeir hafi ekki fyrirgefið þessa lúalegu framkomu sem kom fram í atkvæðagreiðslu á Alþingi þann 28. september árið 2010, fyrir einungis 6 árum. Síðar var flutt tillaga í þinginu um að draga málið til baka en hún var felld af sama fólki og stóð fyrir níðingsverkinu gagnvart Geir.
Rétt er að rifja hér upp hverjir kusu með því að ákæra Geir H. Haarde af þeim sem enn eiga sæti á þingi.
Sjá meðfylgjandi yfirlit yfir kosninguna á Alþingi þann 28. September 2010:
Þeir sem enn eiga sæti á Alþingi og sögðu já við því að ákæra Geir eru eftirtaldir:
Birgitta Jónsdóttir, Björn Valur Gíslason (varamaður nú), Eygló Harðardóttir, Katrín Jakobsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Oddný Harðardóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Steingrímur J. Sigfússon og Svandís Svavarsdóttir,
Ef Sjálfstæðisflokkurinn leiðir VG til sætis við ríkisstjórnarborð næstu stjórnar, þá munu þeir sem níddust á Geir Haarde í Landsdómsmálinu komast til valda í boði flokks Geirs Haarde. Náttfari trúir ekki öðru en flokksmenn muni rísa upp gegn slíkum gjörningi.
Það yrði Sjálfstæðisflokknum til ævarandi skammar að verðlauna VG með þeim hætti fyrir mesta óhæfuverk í þingsögu Íslands.
Náttfari trúir því ekki að flokksmenn Sjálfstæðisflokksins vilji bjóða Steingrími J. Sigfússyni í fjármálaráðuneytið að nýju, Katrínu Jakobsdóttur í utanríkisráðuneytið, Svandísi Svavarsdóttur til að vera yfirmaður lögreglu og dómstóla í innanríkisráðuneytinu og Birni Val Gíslasyni, varaformanni VG, að gegna starfi sjávarútvegs- landbúnaðarráðherra.