Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, reyndi allt sem hann gat til að skaða hlutafjárútboð Icelandair síðastliðið haust.
Hann hafði uppi stóryrði um félagið og beitti sér gegn því að lífeyrissjóðir fjárfestu í félaginu. Með svipuðum hætti töluðu fleiri óábyrgir verkalýðsrekendur eins og Sólveig Anna Jónsdóttir og Drífa Snædal.
Ragnar gekk þó lengst þeirra í hótunum. Hann beitti stjórnarmenn skipaða af VR í stjórn Lífeyrissjóði verslunarmanna hörðu og hótaði að setja þá af ef þeir felldu ekki tillögu annarra stjórnarmanna sjóðsins um að kaupa viðbótarhlutafé í Icelandair. Þeir lyppuðust niður, hlýddu Ragnari og felldu tillögu um að kaupa fyrir þrjá milljarða króna í útboði Icelandair. Þessir stjórnarmenn eiga allir persónulega hagsmuni undir því komna að halda friðinn við formann VR. Einn er starfandi framkvæmdastjóri VR á fínum launum, annar er „hagfræðilegur ráðgjafi“ í hlutastarfi og tveir eru stjórnarmenn í VR á stjórnarlaunun.
Þau létu undan þrýstingi Ragnars Þórs og felldu á jöfnum atkvæðum tillögu um kaup á þremur milljörðum hlutafjár í Icelandair.
Þau hlýddu skuggastjórnandanum Ragnari Þór og hafa með því stórskaðað hagsmuni sjóðsfélaga í Lífeyrissjóði verslunarmanna.
Hlutabréf í Icelandair sem voru keypt á genginu einum fyrir tveimur mánuðum hafa hækkað um 50 prósent nú þegar. Þannig er skaði lífeyrissjóðsins af afstöðu stjórnarmanna VR þegar orðin einn og hálfur milljarður króna. Búast má við enn frekari hækkunum á hlutabréfum á næstunni þegar bólusetningar hefjast hér á landi og erlendis. Hlutabréf Icelandair gætu þá rokið upp og með því margfaldað þann skaða sem Ragnar Þór Ingólfsson og handlangarar hans bera ábyrgð á gagnvart sjóðsfélögum í Lífeyrissjóði verslunarmanna.
Fjármálaeftirlitið lét hafa eftir sér vegna hótana Ragnars Þórs Ingólfssonar, að skuggastjórnun væri óheimil og yrði ekki liðin af hálfu eftirlitsins. Eftirlitið heyrir nú undir Seðlabanka Íslands. Mjög ákveðnar reglur gilda um vinnubrögð fjármálastofnana, þar á meðal lífeyrissjóða.
Eftirlitið undir Seðlabanka Íslands hefur rúmar heimildir til inngripa ef farið er á svig við reglur og boðleg vinnubrögð.
Hvers vegna hefur Ragnar Þór Ingólfsson ekki verið víttur fornlega vegna tilburða sinna til skuggastjórnunar og hvers vegna hafa fjórir fulltrúar VR í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna ekki verið settir af vegna óeðlilegra stjórnarhátta við ákvörðun um viðskipti í hlutafjárútboði Icelandair sl. haust?
Því verður ekki trúað á hinn skelegga bankastjóra Seðlabanka Íslands, Ásgeir Jónsson, að hann láti ekki til sín taka vegna þessa alvarlega máls umsvifalaust.
Seðlabankinn hefur nægar heimildir til inngripa og ríkar skyldur.