Ætlar benedikt að verðfella ríkiseignir um 200 milljarða?

Mörgum líst illa á það ferli sem Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, hefur ýtt af stað vegna ákvarðana sem teknar verða um framtíðarfyrirkomulag íslensku bankanna. Miðað við furðuleg vinnubrögð ráðherrans í ýmsum málum óttast menn að hann sé að undirbúa það að geta beitt sér fyrir lagasetningu í haust sem gengi út á fullkominn aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka sem hingað til hefur þótt heppilegt að reka saman til að ná fram hagkvæmari rekstri banka. Í eins litlu samfélagi og á Íslandi mega bankar ekki vera minni rekstrareiningar en nú er til að hafa nægilegt afl til að þjóna fólki og atvinnulífinu.

 

Fyrst skipaði Benedikt nefnd til að skoða þá möguleika sem eru fyrir hendi varðandi framtíðarfyrirkomulag í bankakerfinu. Nefndin var einungis skipuð embættismönnum frá Fjármálaeftirlitinu, Seðlabanka Íslands og ráðuneytum. Engir bankamenn eða aðrir með þekkingu á bankastarfsemi áttu sæti í nefndinni og enginn fulltrúi frá atvinnulífinu. Einungis embættismenn.

 

Þessi nefndarskipan er strax vísbending um að fjármálaráðherra vilji engin sjónarmið úr bankaheiminum inn í þessa umræðu. Hann ætlar að koma með tillögur til þingsins um fullan aðskilnað í bankastarfsemi. Það sést langar leiðir.

 

Nú skipar hann aðra nefnd til að fara yfir tillögur embættismannanefndarinnar. Í þeirri nefnd eiga að sitja tveir fulltrúar frá stjórnarandstöðunni. Víst er að annar þeirra mun koma frá Vinstri grænum sem berjast fyrir því að brytja bankana niður með þessum hætti enda eru Vinstri grænir almennt á móti bönkum eins og reyndar flestum fyrirtækjum af stærri gerðinni.

 

Það er yfirleitt enginn hörgull á slæmum hugmyndum um það hvað eigi að gera við stóru bankana sem eru að mestu í eigu ríkissjóðs. Landsbanki og Íslandsbanki að fullu en ríkið á 13% eignarhlut í Arion banka. Vitlausasta hugmyndin kom frá Frosta Sigurjónssyni, fyrrum þingmanni Framsóknar, sem vildi breyta Landsbankanum í eitthvað sem hann nefndi “samfélagsbanka” sem átti að reka án hagnaðarmarkmiða. Þá var bent á að þegar hafi verið gerð myndarleg tilraun með slíkan banka sem heitir Íbúðalánasjóður og hefur kostað ríkissjóð á annað hundrað milljarjða í beinu tapi.

 

Þegar Benedikt Jóhannesson verður búinn að koma lagasetningu gegnum þingið sem miðar að fullum aðskilnaði viðskiptabanka og fjárfestingarbanka, þá mun verðið á Landsbankanum og Íslandsbanka falla um gríðarlegar fjárhæðið. Þess vegna gætu bankarnir fallið í verði um 100 milljarða hvor því rekstrargrundvöllur þeirra mun veikjast svo mikið að verðgildið mun hrapa. Þetta er þekkt frá útlöndum og þetta mun einnig gerast hér. Reikningsdæmið er einfalt.

 

Komi til þessa, mun Benedikt Jóhannesson enn bæta kafla í vondan ráðherraferil sinn. Maðurinn sem á að gæta eigna ríkisins öðrum fremur, væri þá að verðfella dýrmætar ríkiseignir.

 

Vonandi mun Alþingi stöðva þessi áform fjármálaráðherra. En það er ekki víst að það takist því stuðningur við þessa afleitu hugmynd gæti komið úr ýmsum áttum. Alla vega frá Vinstri grænum og trúlega einnig frá Pírötum. Þá er bara að sjá hve margir þingmenn úr öðrum flokkum hafa uppburði í sér til að berja í borðið og stöðva feigðarflanið.

 

Benedikt ætti ekki að vera í neinum vandræðum með að reikna verðfall þessara ríkiseigna, verði leið aðskilnaðar valin. En hann er svo þrjóskur og þver að hann heldur ótrauður áfram út í fenið ef hann hefur bitið eitthvað í sig.

 

Þvermóðska Benedikts hefur leitt til þess að Viðreisn hefur þegar tapað helmingi þess fylgis sem flokkurinn fékk í kosningum sl. haust. Með sama áframhaldi formannsins verður Viðreisn einnota stjórnmálaflokkur.

rtá