Helgi Seljan varpaði sprengju í Silfrinu á RÚV í gær. Hann benti á að Ásmundur Einar Daðason, ráðherra vinnumarkaðarins, væri aðili að launasvikum með fjölskyldu sinni sem rekur stórt kúabú á Mýrum. Fjallað hefur verið um málið í DV þar sem faðir Ásmundar og hann sjálfur voru vændir um alvarleg brot. Seljan furðaði sig á því að þetta hefði ekki vakið meiri viðbrögð stjórnmálamanna og fjölmiðla en raun ber vitni. Því var haldið fram að fjölskyldan hafi hlunnfarið erlenda landbúnaðarverkamenn og jafnvel framið skattsvik að auki en þessi mál eru mjög ofarlega í umræðu fjölmiðla eftir uppljóstranir Kveiks í sjónvarpinu í síðustu viku.
Ásmundur Einar hefur farið hamförum í fjölmiðlum frá því Kveikur birti umfjöllun sína um illa meðferð á erlendum starfsmönnum. Hann talar um að það þurfi að koma upp „sérsveit gegn launasvikum“ og boðar svo harðar aðgerðir að helst minnir á Gestapo á sínum tíma. Ásmundur birtir svo grein í Fréttablaðinu í dag sem ber heitið Gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Gárungarnir velta því nú fyrir sér hvort hann hafi kjark til að senda sérsveitina heim til fjölskyldu sinnar!
Teiknari Fréttablaðsins birtir í dag neyðarlega teikningu sem sýnir bæinn Þverholt á Mýrum, Ásmund Einar og „sérsveitarmennina“ hans. Og textinn er svona: „Halló pabbi“ Má ég koma með nýju vini mína heim að leika í feluleik?“
Ráðherra kemst ekki í gegnum þetta með hræsnisfullum upphrópunum og yfirboðum. Hann og fjölskylda hans verða að gera hreint fyrir sínum dyrum strax. Ekki verður öðru trúað en að fjölmiðlar og þingmenn verði við áskorun Helga Seljan og taki málið upp nú þegar. Á meðan ásökunum Helga Seljan er ekki svarað undanbragðalaust er ráðherrann ómarktækur í umræðunni.
Rtá.