Æ fleiri nota heilun sem slökun

Hrönn Friðriksdóttir heilari var gestur heilsu- og útivistarþáttarins Lífsstíls á Hringbraut í vikunni að sagði þar frá auknum áhuga almennings á heilun og hversu margir sæktu nú orðið í þessa hugarorku sem hvert annað dekur, afslöppun og dægradvöl.


Heilun hefur um árabil verið notuð til að hjálpa fólki við margvíslegum kvillum eins og vel kom fram í þættinum, en Hrönn sagði æ fleiri leita í hana sem slökun og hvíld frá amstri dagsins, en einnig til að aftengja sig og fylla orku fyrir komandi tíma.


Samtal hennar og Sigmundar Ernis í þættinum snerist þó aðallega um innri áhrif heilunar og hvort hún yfirleitt virkaði á fólk. Hrönn kvaðst ekki geta lofað lækningaráhrifum né staðfest bata af völdum heilunar, en hún væri altént ævagömul leið til að efla orkustöðvar líkamans og sækja alheimsljósið og virkja það til góðs í manninum. Heilarinn væri í því sambandi ekkert annað en milliliður, sá sem kæmi á tengingunni - og vel að merkja; allt þetta ljós sem hér væri talað um væri að finna í trúarmyndum aldanna sem menn hefði fyrir sjónum sér; maðurinn hefði nefnilega umgengist þessa orku frá ævafornu, þekkt hana og virt og þegið hana sér til góðs.


Allt viðtalið um heilun má finna í heild sinni undir sjónvarpsflipanum á hringbraut.is.