Aðstoðarseðlabankastjóri snuprar skuggastjórnandann Ragnar Þór og VR

Loksins, loksins! Margir hafa beðið eftir því að Fjármálaeftirlitið léti til sín taka vegna hótanna verkalýðsleiðtoga, einkum Ragnars Þórs Ingólfssonar, sem hafa krafist þess að fulltrúar verkalýðsfélaga í stjórnum lífeyrissjóða tækju pólitíska afstöðu vegna mögulegra fjárfestinga í hlutabréfum Icelandair í næsta mánuði.

Flugfreyjufélag Íslands hefur fellt kjarasamning við Icelandair og sýnt ábyrgðarleysi og óboðlega framkomu í kjaramálum, andstætt því sem önnur félög flugfólks hafa gert.

Stjórn Flugfreyjufélagsins virðist ekki skilja þann veruleika sem við er að fást. Starfandi formaður félagsins birtist í fjölmiðlum og sýnir hroka og grunnhyggni. Fullreynt er að ekki verður unnt að starfa með félaginu.
Icelandair á því ekki annan kost en að semja við annað félag launþega um störf flugfreyja og flugþjóna. Það verður gert.

Þá bregður svo við að nokkrir verkalýðsforstjórar stíga fram með einkar vanhugsuðum hætti og hóta öllu illu, þar á meðal aðgerðum sem þeir ráða alls ekki yfir. Fyrir utan það að ætla að skipa ríkisstjórninni fyrir verkum, þá vilja sumir þeirra reyna ólögmæt inngrip í störf réttkjörinna stjórna lífeyrissjóða.

Ragnar Þór Ingólfsson, sem stundum virðist hata atvinnulíf landsins, segist ætla að krefjast þess að fullrtúar VR í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna leggist gegn kaupum á hlutabréfum í Icelandair vegna þess að félagið ætli að vinna með flugfreyjum úr öðru verkalýðsfélagi en verið hefur.

Ragnar hótar því að fólki verði skipt út úr stjórn sjóðsins hlýði það ekki pólitískum fyrirmælum hans. Hér er viðurkennd grímulaus skuggastjórnun sem er algerlega óheimil og ólögleg.

Þegar þannig er komið, þá hlýtur Fjármálaeftirlitið að taka til sinna ráða.
Seint í gær birti Fréttablaðið viðtal við Unni Gunnarsdóttur, aðstoðarseðlabankastjóra, sem fer með málefni eftirlitsins.

Unnur sagði um yfirlýsingar Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR:

“Algjörlega óeðlilegt og ófaglegt” að verkalýðsfélög setji þrýsting á stjórnir lífeyrissjóða um að sniðganga hlutafjárútboð Icelandair. Svo minnti hún á að stjórnarmenn í lífeyrissjóðum störfuðu sjálfstætt og bæru ábyrgð sem slíkir. Þeir eiga að gæta hagsmuna ALLRA sjóðsfélaga og taka ekki við utanaðkomandi fyrirmælum.

Nú verður að vænta þess að eftirlitið taki á skuggastjórnunartilburðum formanns VR.
Fjármálaeftirlitið hefur mikið vald. Það getur sett stjórnir eða einstaka stjórnarmenn af, ef þeir fara á skjön við lög, reglur eða fyrirmæli. Og þá er ekki átt við fyrirmæli formanna verkalýðsfélaga - heldur fyrirmæli aðila eins og Fjármálaeftirlitsins.

Þeir stjórnarmenn Lífeyrissjóðs verslunarmanna sem nú koma frá VR eru allir á launum þar og undir áhrifavaldi formannsins Ragnars Þórs. Hér er um að ræða framkvæmdastjóra VR, launaðan ráðgjafa VR og tvo stjórnarmenn sem þyggja þar stjórnarlaun.

Hér er um afar veika stöðu að ræða.
Fjármálaeftirlitið hlýtur nú að íhuga vel til hvaða aðgera verður gripið í ljósi hótana formanns VR sem ekki er unnt að túlka með öðrum hætti en tilburði til skuggastjórnunar.