Fiskeldismenn fara nú mikinn í viðleitni sinni til að hrifsa til sín sem mest af leyfum til að stunda sjókvíaeldi á laxi í fjörðum og flóum Íslands. Svo virðist sem runnið hafi einhvers konar æði á menn hvað þetta varðar.
Ljóst er að framundan er blóðug barátta um það hvort stjórnvöld heimila að vilta laxastofninum í veiðiám Ísland verði fórnað á altari þessa nýjast gullgrafaræðis okkar. Vitað er að áhættan er mikil gagnvart náttúru landsins en ávinningur getur verið mikill af rekstri sjókvíaeldis. Græðgi þeirra sem vilja ná heimildum til að stunda sjókvíaeldi virðist vera ótakmörkuð. Verndarsinnar vara við og hafa greinilega verk að vinna.
Úrkynjaður eldislax sem sleppur út úr sjókvíum hefur tilhneygingu til að ganga upp í laxveiðiárnar með háskalegum afleiðingum fyrir vilta stofna. Þá stafar einnig mikil hætta af lús sem getur valdið ómældum skaða eins og virðist vera raunin í Færeyjum, þar sem umfangsmikið sjókvíaeldi er stundað.
Full ástæða er til að staldra við framgöngu Einars Kristins Guðfinnssonar, fyrrverandi alþingismanns, sjávarútvegsráðherra og forseta Alþingis. Hann var ráðinn til starfa hjá Samtökum fiskeldisfyrirtækja um leið og hann lét af þingmennsku fyrr í vetur. Nú gegnur hann fram af mikilli hörku í hagsmunagæslu fyrir vafasaman málstað og nýtir sambönd sín úr kerfinu til að koma sínu fram. Hafa þarf sérstakar gætur á mönnum sem stíga beint út úr opinberum störfum eins og hann hefur gert og hefja hatramma hagsmunabaráttu. Víða erlendis er beinlínis bann lagt við því að þingmenn hefji störf við hagsmunagæslu fyrr en að nokkrum tíma liðnum. Einar Kristinn sá enga ástæu til að láta slíkan umþóttunartíma líða og var byrjaður að starfa fyrir fiskeldisfyrirtækin um leið og hann gekk úr úr Alþingishúsinu eftir aldarfjórðungsstarf þar.
Einar Kristinn Guðfinnsson var vel liðinn sem þingmaður og hefði haft alla möguleika á að njóta virðingar að loknum löngum póilitískum starfsferli, ef hann hefði ekki valið að feta þá leið sem raun ber vitni. Nú hafa margir vara á gagnvart honum. Traust er fljótt að týnast. Það er sorglegt að sjá það gerast þegar annars gott fólk á hlut að máli. En græðgin er harður húsbóndi.
Orri Vigfússon fer fyrir þeim fjölmörgu sem vilja allt til vinna að verja vilta laxastofninn við Ísland. Þeir hafa bent á hvernig norskar laxveiðiár hafa hnignað vegna úrkynjunar sem stafar af eldisfiski sem sloppið hefur úr kvíum. Þeir gera kröfur um að ekki verði veitt leyfi nema fyrir lokuðum kerfum á sjó og fiskeldi á landi. Full ástæða er til að taka undir sanngjarnar kröfur þeirra.
Náttfari hefur þá trú á Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, að hún muni ekki láta vaða yfir sig með frekju og yfirgangi. Hún hefur áður sýnt að hún lætur ”freku karlana” ekki ógna sér. Ráðherra verður að róa alla framvindu á sviði fiskeldismála, bíða eftir þeim úttektum og rannsóknum sem eru í gangi og marka síðan stefnu um atvinnugreinina í heild.
Vonandi verður niðurstaða hennar sú að beina allri aukningu á sviði fiskeldis inn í lokuð og örugg kerfi á sjó eða þá í fiskeldi á landi.
Þar til stefnumörkun ráðherra er tilbúin, verða allir að bíða rólegir. Líka fyrrverandi sjávarútvegsráðherra sem nú er kominn í grjótharða hagsmunabaráttu. Hann á engan forgang að hafa umfram aðra því nú er hann “fyrrverandi” og þar af leiðandi bara “óbreyttur borgari” eins og við hin.