Fræðslufundur ADHD samtakanna, fer fram fimmtudaginn 11. apríl 2019 kl. 20:00 í húsi Íslenskrar erfðagreiningar, Sturlugötu 8 i Reykjavík. Þar mun Dr. Bryndís Eva Birgisdóttir, næringarfræðingur og Dr. Bertrand Lauth, geðlæknir fjalla um rannsóknir á tengslum ADHD og mataræðis.
Í tilkynningu á vef ADHD samtakanna segir að matur hafi mikinn mátt. Þá segir enn fremur: „
Hann flæðir um kroppinn eftir hverja máltíð og getur haft ýmis dularfull áhrif sem gaman er að skoða. Á síðustu árum hefur rannsóknum á tengslum mataræðis og ADHD fleygt fram, en niðurstöður eru að hluta mótsagnakenndar og einstaklingsmunur mikill. Þó er ljóst að örveruflóra meltingarvegar hefur þar einhverju hlutverki að gegna, en mataræði er einn af þeim þáttum sem geta mótað hana. Þá virðist gott næringarástand alltaf vera mikilvægt þegar kemur að vellíðan og hreysti.“
Bryndís Eva Birgisdóttir og Bertrand Lauth, hafa síðustu ár beint kröftum sínum meðal annars að tengslum mataræðis og geðraskana. Í erindi þeirra verður farið yfir þær vísindarannsóknir sem gerðar hafa verið, bæði erlendar og svo nýlegar íslenskar rannsóknir og rannsóknaráætlanir.
Fundinum verður einnig streymt beint til Akureyrar, í húsnæði Grófarinnar, Hafnarstræti 95, 4 hæð, til Hornafjarðar í húsnæði Nýheima, Sauðárkróks í húsnæði Farskólans og etv fleiri staða.