Sigurður Sævar Magnúsarson myndlistarmaður, listaverkasafnari og lífskúnster verður hjá Sjöfn Þórðar í þættinum Fasteignir og Heimili í kvöld:
Íslensk myndlist er eitt af því sem er mikið augnakonfekt fyrir heimili þar sem þau skipa oft stóran sess og stundum lýsa verkin eiganda sínum vel á táknrænan hátt. Fallegt málverk á vegg getur breytt öllu.
Sjöfn Þórðar heimsækir Sigurð Sævar Magnúsarson á heimili hans og vinnustofu í þættinum Fasteignir og heimili í kvöld þar sem myndlistin er svo sannarlega í forgrunni og fangar gestsaugað.
Sigurður Sævar er ungur og efnilegur myndlistarmaður sem hefur ástríðu fyrir íslenskri myndlist og hefur sankað að sér fjölda fallegra verka eftir íslenska myndlistarmenn. Hann hefur verið heillaður af íslenskri myndlist allt frá því hann var sjö ára gamall en eftir ferð á málverkasýningu fékk hann uppljómun og ástríðan blossaði.
„Það var sýningin hans Ólafs Elíassonar myndlistarmanns, Frostvirkni sem sýnd var í Hafnarhúsinu árið 2004 þar sem ég heillaðist gjörsamlega upp úr skónum. Þar kviknaði áhugi minn á myndlist,“ sagði Sigurður Sævar og man þessa stund eins og hún hafi gerst í gær.
Sjálfur er hann einstakur myndlistarmaður sem hefur mótað sér sinn eigin stíl sem tekið er eftir. Heimili hans og vinnustofa ber þess sterk merki og tilfinningin að stíga inn til Sigurðar Sævars er eins og í frönsku listamannahverfi þar sem listin er alls ráðandi og boðið er uppá veitingar á franska vísu. Heimsins beztu Sörur eru bornar fram fyrir gesti en faðir Sigurðar, Magnús Ólafsson, bakar þær af hjartans list og kann svo sannarlega að töfra fram franska bragðið sem tónir vel við listamannshandbragðið.
Sigurður Sævar er listrænn, fróður og mikill lífskúnstner með fallega og ljúfa nærveru sem heillar alla sem til hans koma. Sigurður Sævar hefur þegar haldið þó nokkrar einkasýningar þrátt fyrir ungan aldur. Sigurður Sævar er aðeins 22 ára gamall, hefur málað síðan hann var tíu ára gamall og byrjaði að safna málverkum eftir íslenska myndlistarmenn á unglingsárum.
„Þegar ég var tíu ára fékk ég í afmælisgjöf pensil, málningu og striga frá systur minni. Daginn eftir málaði ég mynd, eftir að hafa tekið þá ákvörðun að gerast myndlistarmaður í framtíðinni. Þetta var þann 16. september árið 2007,“ sagði Sigurður Sævar og hefur málaða fjölda málverka síðan.
Sigurður Sævar stundar nám við Konunglegu listaakademíuna í Haag í Hollandi sem er virtur listaháskóli og er að hefja annan vetur sinn þar í september. Listin á hug hans allan og það er virkilega gaman að njóta listarinnar með leiðsögn hans og handbragðs.
Missið ekki af athugaverðu og lifandi innliti á listamannsheimili og vinnustofu.
Þátturinn Fasteignir & Heimili verður á dagskrá í kvöld klukkan 20.30 og er að jafnan ferskur, fjölbreyttur og með persónulegum blæ.