Aðeins ein af fimmtán íslenskum íslenskum vefsíðum sem selja barnafatnað á netinu reyndist vera í lagi og samræmast regluverki um merkingar á fatnaði og upplýsingar um viðkomandi söluaðila.
Eina síðan sem uppfylti kröfurnar var Tvö líf, að því er segir á vef Neytendastofu í dag.
Fullnægjandi upplýsingar um söluaðilann vantaði á 12 vefsíðum, aðallega var um að ræða að það vantaði nafn og kennitölu fyrirtækisins sem og virðisaukanúmer. Einnig vantaði upplýsingar um textíl merkingar á barnafatnaðnum hjá 11 vefsíðum, segir ennfremur.
Bent er á, að neytendur séu í auknum mæli að versla fatnað á netinu. Þeir eigi að geta séð alveg eins og þegar varan sé keypt í verslun úr hverju flíkin er, til dæmis hvort varan sé úr 100% bómull eða bómullarblöndu, eða hvort hún sé úr polyester: \"Þó að það sé ekki krafa að birta þvottaleiðbeiningar á vefsíðum þá hvetjum við söluaðila til að birta þær líka. Góð regla er að allar þær merkingar og leiðbeiningar sem fylgja vörunni séu einnig aðgengilegar á netinu.
Neytendur eiga einnig að geta séð hver seljandi er og þess vegna á að koma fram nafn fyrirtækis, heimilisfang þar sem fyrirtækið hefur staðfestu, kennitala, netfang, vsk.númer og sú opinbera skrá sem fyrirtækið er skráð hjá, svo sem firmaskrá,“ segir á vef Neytendastofu.