Morgunblaðið birtir forvitnilega frétt um tvo Reykvíkinga sem hafa staðið á bak við kráarrölt þar sem þeir leiða ferðamenn í gegnum næturlíf Reykjavíkurborgar og kynna þá fyrir öldurhúsum og skemmtistöðum.
Þessir tveir vinna sumsé við að djamma – eða öllu heldur vinna við að kynna þjóðardjammið fyrir ferðamönnum. Eflaust taka hinir útlendu vinir okkar oft sjálfir þátt í djamminu. Sumir láta sér nægja að fylgjast með líkt og þegar við förum í Dýragarðinn í Kaupmannahöfn og horfum á tígrisdýr milli rimla. Aðrir fara „all in“ – og geta það þá áhyggjulausari en ella undir íslenskri leiðsögn sem felur í sér ábyrgð og vernd, skyldi maður ætla. Þeir djammvinnufélagar taka fram í Mogganum að djammið sé fullt starf og ríflega það. Stundum þurfi þeir að fá fleiri djammsérfræðinga til liðs við sig á öldurhúsum höfuðborgarinnar - þegar mest er að gera. Þeir djamma ekki sjálfir á meðan. Þeir eru bara í vinnunni.
Viðbúið er að þjóðarsálin kunni að hafa ýmsar skoðanir á svona störfum. En allt lýtur að einu. Ferðaþjónusta tekur breytingum í takt við þá þróun sem sífellt verður á mannsandanum. Tískuorðið í dag er authentic. Að fá að kynnast ósvikinni upplifun er keppikefli æ fleiri ferðamanna. Æ fleiri túristum finnst hefðbundin hótel of þunglamaleg, sama má segja um heðfbundin veitingahús og hefðbundnar skoðanaferðir. Vitað er um ferðaskrifstofur sem senda fólk hingað til lands og hafa nú þegar komið auga á að hápunktur upplifunar getur falist í því að túristinn fái (svo eitt dæmi sé tekið) að fara inn í á íslenskt heimili. Dæmi eru um að innan veggja íslenskra heimila geti erlendir ferðamenn í notalegu spjalli fræðst um íslensk gildi (ef þau eru þá til!) fjölskyldu- og/eða þjóðmenningu. Veitingar reiddar fram í heimahúsi kunna að smakkast öðruvísi en á hóteli. Þegar saman fer saga, upplifun og matur getur ferðamaðurinn sagt öðruvísi og ósviknar sögur þegar hann snýr heim. Ein besta skilgreiningin á vel heppnaðri ferðaþjónustu er að skapa túristanum aðstæður til að geta sagt sögur úr ferðinni. Við finnum það sjálf þegar við förum út fyrir landsteinana. Ef við getum sagt áhugaverðar og skemmtilegar sögur af upplifun okkar í útlandinu finnst okkur fríið hafa verið gott.
Fagfólk í ferðabransanum hefur sagt að meiri breytingar kunni að verða á ferðaþjónustu innan tíðar en nokkur sér fyrir. Hið sérstæða og persónulega verði þar í öndvegi. Sumir setja spurningarmerki við fjölda hótela sem verið sé að reisa. Að stefnusýn hins opinbera kunni um of að miðast við veruleika sem var en ekki veruleika sem verður.
Vöfflukaffi á íslensku heimili, umræða um málverk á íslenskum stofuvegg. Ferð á krá með djammleiðsögumanni; þetta geta allt verið dæmi um fjölbreytt sóknarfæri.
Á sama tíma má kannski segja að skil hins persónulega og faglega séu að verða æ óljósari. Það má spyrja hvaða breytingar það hafi í för með sér – bæði fyrir einstaklinginn og samfélagsgerðina.