Að verða það á að hæla fólki

Þeim sem hér skrifar varð það á að hæla sjónvarpsþáttaröðinni Ófærð í léttum pistli sem ég skrifaði á eigið vefsvæði, Kvikuna, á hringbraut.is.

Oft hefur maður farið með himinskautum í gagnrýni á menn og málefni. Sjaldnast hefur það leitt til mikillar ólgu eða áreitis. Það er eins og það sé norm hjá þessari þjóð að við tölum og skrifum beitt og gagnrýnið hvert um annað en að hól sé ekki eins vel séð. Að gerð sé meiri krafa til rökstuðnings ef við viljum lyfta einhverju með jákvæðum hætti á sama tíma og sleggjudóma þarf sjaldnast að rökstyðja.

Í áramótaþætti Hringbrautar á dögunum lýsti Gunnar Smári Egilsson blaðamaður því menningarsjokki þegar hann flutti frá Frakklandi heim til Íslands á ný fyrir skemmstu og var að leita sér að mannskap til að starfa með. „Nei, hann, þessi, hann er alveg vonlaus, hann sagði þetta, gerði þetta! Nei, hún er alveg hryllileg, hún gerði þetta, hún sagði þetta.“ Þetta voru viðbrögðin sem einkenndu samtöl við fólk, sagði blaðamaðurinn í samanburði Frakklands og Íslands. Gunnar Smári sagðist ekkert botna í þessu samfélagi, að það fyrsta sem fólki virtist detta í hug þegar einhver væri til umræðu, væri að tala illa um hann, draga fram neikvæða þætti þótt fjölmargir kostir væru fyrir hendi hjá okkur öllum. Það væri hreinlega ekki í tísku að tala vel um náungann eða gefa þeim kredit sem ættu það skilið.

Þetta datt mér í hug eftir að hafa orðið það á að skrifa örfá orð um að mér þætti Ófærð góður sjónvarpsþáttur. Ég endaði þau skrif á að þakka fyrir mig.

Skömmu síðar hófst tagghrina á facebook þar sem ýmsir landsþekktir nöldurseggir töldu mig hafa sem gagnrýninn mann svikið nánast lit að hafa hælt sjónvarpsefninu. Allt var tínt til. Á einum þræðinum kom fram að það hlaut að hanga á spýtunni að ég hefði verið keyptur til að láta jákvæð orð falla.

Árið 2011 sagði þáverandi biskup að ærumeiðingar og mannorðsmorð væru daglegt brauð í opinberri umræðu hér á landi.  Reiðin spýtti galli sínu um þjóðarlíkamann. Þá vorum við flest enn í sárum eftir efnahagshrunið en nú er manni sagt að það sé komið góðæri. En samt svo mikil neikvæðni?

Hin íslenska þjóðarsál gæti verið okkur umhugsunarefni, hvað sem líður mismunandi smekk á sjónvarpsefni. Erum við hætt að tala vel hvert um annað, kunnum við það ekki lengur? Er líklegra að sá sem ræðir hlutina með jákvæðum hætti fái neikvæð viðbrögð en hinn sem slettir gallinu alla daga?
 
Hvað hefur þá orðið um möntruna góðu, að ef þú smælir framan í heiminn smæli heimurinn framan í þig?
 

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringraut.is)