Mig langar aðeins að víkja að því sem mér finnst raunverulega skipta máli núna.
Það var í fyrradag. Ég var staddur í útivist austur í Mývatnssveit með tvö yngstu börnin mín, 5 og 8 ára. Við ákváðum að ganga \"kirkjuhringinn\" í Dimmuborgum. Sumir með styttri fætur en aðrir og mismunandi vel skæddir. Áhrif þess urðu ljós þegar krapaelgur birtist á meginhluta gönguleiðarinnar, skammt vestan Stóra Gatakletts. Óð yngra barnið, 5 ára gömul stúlka, þar snjóinn í hné og fór ástand gönguleiðarinnar versnandi. Ég tók dóttur mína á hestbak en féll þá djúpt í hverju skrefi niður í loft- og krapakenndan snjóinn. Tók hana af baki mér og leiddi hana. Bróðir hennar skoppaði um á undan okkur tveimur líkt og í eigin heimi.
Kom þá að því að við stúlkan urðum að stoppa til að losa snjó úr stígvélunum hennar. Þegar því brölti var lokið uppgötvaði ég að drengurinn var horfinn. Þetta var um hálfum kílómetra áður en við komum að steinkirkjunni náttúrulegu. Þótt ég hefði strax miklar áhyggjur af því að sjá ekki drenginn í því varasama landslagi sem Dimmuborgir í snjó eru óneitanlega og þótt sá stutti svaraði ekki hrópum mínum ályktaði ég að hann hlyti að bíða okkar í kirkjunni, enda nokkuð hagvanur á þessum slóðum.
Til að gera langa sögu stutta hrundi heimurinn þegar við dóttir mín komum í kirkjuna. Þar var enginn strákur. Ég hljóp upp á hæstu kletta og reyndi að ná yfirsýn. Hrópaði allt hvað af tók en enginn virtist heyra nema furðu lostnir útlenskir ferðamenn þegar ég kallaði nafn drengsins míns hvað eftir annað.
Þegar ég var krakki voru lögregla og björgunarsveitarfólk iðulega kölluð út þegar ferðamenn villtust í Dimmuborgum. Það var þó á sumrum, engin snjóloft og enginn kuldi. Samt gat það tekið klukkustundir að finna fólkið, stundum heilan dag. Um síðustu helgi var vægast sagt kalt í veðri fyrir norðan. Ég hugsaði að eftir nokkrar klukkustundir færi að skyggja og færi hitinn þá undir frostmark. Hugsanlegt var að strákurinn hefði e.t.v. farið út af stígnum og e.t.v. dottið í snjóloft eins og við Mývetningar köllum það þegar snjór er svikull og loftrými undir, þannig að fótur fer í gegn eða jafnvel allur líkaminn. Sprungur sem teygja sig tugi metra undir yfirborðinu eru í Dimmuborgum á hverju strái.
Á þessum tímapunkti var ég hreint út sagt ofsahræddur en þurfti þó að sinna skyldum gagnvart yngra barninu. Sophies Choice. Ég stökk af stað frá kirkjunni, reyndi hvað eftir annað að hlaupa með dóttur mína til að draga drenginn uppi, ef han væri þá enn á stígnum. Vegna krapans sukkum við tvö djúpt í snjóinn með reglulegu millibili, einu sinni var ég næstum dottinn með hana á herðunum. Hugleiddi að hringja í vini, lögreglu og björgunarsveit, biðja allt tiltækt lið að koma strax til að spara e.t.v. dýrmætan tíma. Innst inni vonaði ég allan tímann að strákurinn hefði hraðað sér allan hringinn og myndi bíða okkar tveggja í ólæstum bílnum okkar á ásnum þar sem gengið er inn í borgirnar.
Tíminn stóð líkt og í stað það sem eftir lifði ferðarinnar. Oft langaði mig að biðja dóttur mína að setjast á stein og halda kyrru fyrir, hlaupa sjálfur einn af stað í leit að stráksa. Það var þó sama hve oft ég hugsaði það, varla væri það betri kostur. Stelpan gæti sjálf tekið sig upp, rambað út í óvissuna, dottið sjálf í snjóloft. Ekki hugnaðist mér heldur að ókunnugt fólk myndi finna hana eina í tröllslegasta landslagi alheimsins, hinum dulúðlegu Dimmuborgum. Áfram, bíða og vona. Áfram, bíða og vona.
Loks lukum við hringnum. Svitinn streymdi niður í augun og blandaðist tárum þegar átta ára glókollur sat brosandi í bílnum okkar og horfði spenntur í átt til okkar. Svipur sigurvegarans var á andliti hans. Svipurinn sagði: Pabbi, var ég ekki duglegur að hlaupa einn allan Dimmuborgarhringinn?
Þannig getur átta ára gamalt barn hugsað. Óheppilegt en innan marka. Það sem kann að vera afrek í augum barns getur gert foreldra gráhærða á örskotsstundu. Ég var reyndar fyrir þennan dag löngu orðinn gráhærður og ekki vegna barnanna minna heldur vegna sjálfskapaðs vesens! En við sonurinn horfðumst nokkuð lengi í augu án þess að segja nokkuð þegar fundum okkar bar loks saman. \"Hann er fundinn, sagði stelpan og skríkti.\"
Að kvöldi dags varð mér hugsað til þess að það er hreint ekki sjálfgefið frá morgni til kvölds að allt gangi vel. Það er ekki sjálfgefið að börnin okkar snúi heil heim að loknum skóladegi hvað þá meira. Með þær hugsanir í farteskinu ákvað ég að miðla reynslunni áfram. Mörg okkar hafa lært að þakka fyrir hvern dag. En það er líka full ástæða til að þakka fyrir hverja nótt þegar börn okkar eða aðrir ástvinir sofa í húsunum með okkur, vært undir hlýjum sængum.
Víðar er hægt að villast en í Dimmuborgum.
Björn Þorláksson