Alþjóðlegur samanburður er okkur Íslendingum mikilvægur. Með honum sjáum við hvernig við stöndum gagnvart öðrum ríkjum, hvar við getum bætt okkur og hvað við gerum vel. Það er ekki síður mikilvægt að aðrir sjái stöðu Íslands í alþjóðlegu tilliti. Þetta skiptir ekki síst máli þegar kemur að alþjóðaviðskiptum þar sem fyrirtæki og stofnanir þurfa að meta áhættu af samskiptum við Ísland. Þannig getur meiri spilling ríkis mögulega leitt til hærri lántökukostnaðar fyrirtækja.
Einn slíkur mælikvarði mikilvægur viðskiptum er alþjóðlegu samanburður um spillingu. Alþjóðleg stofnun um gagnsæi „Transparency International“ safnar gögnum frá 13 gagnaveitum, sem eru ýmist sjálfstæðar rannsóknarstofnanir eða deildir sem sérhæfa sig í rannsóknum á helstu meginstoðum stjórnkerfa ólíkra landa.
Gögn um spillingu
Í nýjustu mælingum um spillingu á Íslandi notar Transparency International sjö gagnaveitur í útreikningum sínum. Þær eru gögn frá ÞýskuBertelsmann stofnuninni sem metur stjórnarhætti ríkja (og gefur Íslandi 53 stig); Economist Intelligence Unit (72 stig); IHS Global Insight sem mælir viðskiptaumhverfi og áhættu (83 stig); Árleg könnun IMD meðal stjórnenda á samkeppnishæfni (80 stig); Alþjóðafyrirtækið PRS sem mælir alþjóðlega áhættu (85 stig); KönnunAlþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) meðal stjórnenda á samkeppnishæfni (85 stig); og að lokum verkefnið „Varieties of Democracy“ sem er samanburður norrænna og bandarískra stofnana á lýðræði (77 stig fyrir Ísland). Öll ofangreind stig gefin Íslandi gáfu að meðaltali 76 stig sem var heildarstigagjöf fyrir Ísland hjá „Transparency International“ á spillingu árið 2018. Í stuttu máli þykir Ísland mun spilltara en nágrannaþjóðirnar.
Umsögn Bertelsmann stofnunarinnar sker sig úr hvað varðar Ísland
En af hverju kemur Ísland svo illa út í samanburði við nágranna sína? Er Ísland í raun svona spillt? Það vekur sérstaka athygli að Ísland kemur sérstaklega illa út í samanburði Bertelsmann stofnunarinnar sem skoðar stjórnarhætti, lýðræði, og spillingu stjórnmála- og embættismanna. Stofnunin þykir af mörgum merkileg og ýmsir aðilar, til að mynda „Transparency International“, nota niðurstöður Bertelsmann í mælikvörðum um spillingu í ríkjum heims m.a. á Íslandi.
Samanburð Bertelsmann stofnunarinnar fyrir 2018 má greina í þrjá þætti: Árangur stefnumörkunar, lýðræði, og stjórnarhættir. Á öllum þremur þáttum skorar Ísland mun lægra en Norðurlandaþjóðirnar. Ísland fær einkunnina 6,53, en Svíþjóð fær 8,15 í árangri stefnumörkunar. Það þykir minna lýðræði á Íslandi (einkunn 6,80 fyrir Ísland á móti 9,19 fyrir Svíþjóð). Stjórnarhættir eru síðri hér (Ísland fær 6,82 í einkunn á meðan Svíþjóð fær 8,39).
Íslenskar heimildir Bertelsmann stofnunarinnar
En er staða lýðræðis og stjórnarhátta virkilega svona slæm á Íslandi? Hvaðan koma þessi gögn? Hverjar eru heimildir þeirra? Það vekur athygli að tveir af þremur höfundum Bertelsmann skýrslunnar um Ísland eru þeir Grétar Þór Eyþórsson, Háskólanum á Akureyri annars vegar og Þorvaldur Gylfason, Háskóla Íslands hins vegar. Báðir verða þeir að teljast frekar gagnrýnir á íslenskt samfélag.
Hér gæti komið til álita óhæði höfunda. Prófessor Þorvaldur Gylfason, einn höfunda Íslandskafla Bertelsmann skýrslunnar, var í framboði í kosningum til stjórnlagaþings á Íslandi sem haldnar voru í nóvember 2010. Kjörsókn reyndist dræm (36,8%) og Hæstiréttur Íslands ógilti síðan kosninguna ári síðar. Þorvaldur Gylfason var einnig formaður og frambjóðandi Lýðræðisvaktarinnar. Í Alþingiskosningum 2013 töldu einungis 2,5% kjósenda að Þorvaldur ætti erindi á þing. Kann það að vera skýring á að Ísland fái útreið í umfjöllun um lýðræði og spillingu?
Damóklesarsverð Íslands
Í Íslandskafla síðustu Bertelsmann skýrslunnar er mikil áhersla lögð á að Ísland hafi ekki fengið nýja stjórnarskrá. Mörgum árum síðar er höfundurinn Þorvaldur enn reiður eftir setuna í stjórnlagaráði. Hann fer á skáldaflug og vísar til frásagnar Síseró af sverði Damóklesar (les: stöðug yfirvofandi hætta).
„Síðast en ekki síst hangir hin óleysta spurning um nýja stjórnarskrá yfir Íslandi líkt og Damóklesarsverð. Í lýðræðisríki getur þjóðþing ekki undir neinum kringumstæðum leyft sér að líta framhjá ótvíræðum niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá. Eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá sem boðuð var af Alþingi árið 2012, þar sem kjósendur veittu sterkan stuðning við tillögu Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá, hefur Alþingi enn ekki fullgilt tillögurnar og þannig dregið úr lýðræði Íslendinga.“
Flestir Íslendingar telja Ísland vera lýðræðisríki. Og fáir missa svefn vegna þess að það vanti nýja stjórnarskrá á Íslandi. En ekki höfundar Íslandskafla Bertelsmann skýrslunnar um stjórnarhætti og lýðræði. Hann talar Ísland niður á erlendum vettvangi og er síðan er tekinn upp sem heimild um spillingu á Íslandi.
Er nokkur furða að Ísland skori lágt?
Eftir prófessor Þorvaldur Gylfason liggja mörg skrif um pólitísk baráttumál hans. Línan er ljós: Íslenskt lýðræði er ekki upp á marga fiska. Fulltrúalýðræðið heldur verra þar sem spillingin kraumar. Þorvaldur Gylfason er ekkert að skafa utan að því í grein í Fréttablaðinu 19. júlí sl.:
„Ferill Alþingis frá hruni er hroðalegur á heildina litið. Hrunið var einkum Alþingi að kenna. Það var Alþingi sem einkavæddi bankana með því að leggja þá í hendur óhæfra eigenda úr vinahópi valdsins. … Of margir þingmenn nærast á mismunun í kvótakerfinu og kjördæmaskipaninni, mismunun og meðfylgjandi mannréttindabrotum sem nýju stjórnarskránni er ætlað að hemja. Of margir þingmenn nærast á leynd og meðfylgjandi spillingu. Of margir þingmenn senda lýðræðinu langt nef án þess að blikna. Þeir skáka í skjóli þess að lýðræði á nú undir högg að sækja víða úti í heimi.“
Skrif Þorvaldar í Fréttablaðinu 22. mars 2018 voru undir fyrirsögninni \"Aldrei að ýkja\":
„Eigum við ekki heldur að ræða opinskátt um afturförina sem er smám saman að birtast umheiminum og okkur sjálfum í erlendum skýrslum sem sýna að spilling á Íslandi mælist mun meiri en annars staðar um Norðurlönd og vitna um lýðræði sem hefur látið undan síga og mælist nú einnig veikara hér en annars staðar á Norðurlöndum? [og hér er tengill á https://www.transparency.org/country/ISL] Nei, við verðum að ræða málið opinskátt frekar en í hálfum hljóðum. Annars getum við varla endurheimt stöðu okkar við hlið annarra Norðurlanda. Ef við þegjum eykst hættan á að við höldum áfram að dragast aftur úr.\"
Hljómar það ekki kjánalega þegar óhlutdrægi vísindamaðurinn Þorvaldur Gylfason skuli sífellt tala Ísland niður með því að vitna til skýrslu „Transparency International“ um spillingu á Íslandi, sem byggir aftur á Bertelsmann stofnuninni um stjórnhætti, þar sem aðalheimildin er – jú mikið rétt - hann sjálfur!