Að skrifa status – reiður!

Sá sem hefur það að atvinnu sinni að greina samfélagið með orðum verður að jafnaði að vanda vel til vinnu sinnar.

Ekki alls fyrir löngu þótti best að fjölmiðlamenn lýstu aldrei skoðunum sínum á opinberum vettvangi. Það hefur breyst með nýjum hugmyndum um mannréttindi okkar allra til að tjá okkur og tilkomu bloggs og samfélagsmiðla.

Á sama tíma hefur þótt alheimslögmál að ekkert okkar eigi nokkru sinni að setja fram opinbera skoðun eða greiningu þegar reiði er okkur efst í huga. En engin regla er án undantekninga.

Í gær upplýsti innanríkisráðherra vegna fyrirspurnar frá Helga Hrafni Gunnarssyni þingmanni, að fimm mál hefðu verið kærð til lögreglu eftir þjóðhátíð í Eyjum í sumar. Þessi mikli fjöldi næstalvarlegasta brots sem framið er í samfélögum (morð trompar eitt hrylling nauðgunar) kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Þessi tölulega staðreynd ýfði upp þær tilfinningar sem kviknuðu í brjóstum okkar margra fyrir „hátíðina“ í ár þegar ljóst varð að fréttabann yrði frá kynferðislegum árásum í Eyjum. Hagur þolenda var sagður í fyrirrúmi með þeirri ákvörðun. Of margar áleitnar spurningar kviknuðu þó til að alþjóð legði trúnað á slíkt.

Þegar ég las um þessi fimm tilvik í gær ætlaði ég að skrifa pistil hér í Kvikuhólfið mitt á Hringbraut. Tölurnar vöktu samt svo mikla reiði í hjarta mínu, af því að ég sá fyrir mér eyðilegginguna á bak við þær, að ég ákvað að ritskoða mig ekki alveg út af umræðukortinu heldur barði inn það sem mig langaði að segja og lét duga að birta á eigin facebook-síðu.

Sólarhring síðar hef ég komist að þeirri niðurstöðu að ég hefði átt að birta það strax sem mér kom fyrst í hug hér á Kvikunni, í almannarými þess fjölmiðils sem ég starfa hjá. Þannig var pistilinn sem ég barði reiður inn á facebook í gær:

„Nú hefur komið á daginn að fimm - já fimm kynferðisbrot voru framin og kærð til lögreglu á síðustu Þjóðhátíð í Eyjum.

Þeir hljóta að vera með óbragð í munni - ef hinir sömu búa yfir sómatilfinningu - sem tóku þátt í að „hæpa upp“ fjörið og gleðina, löptu upp eftir löggunni og hagsmunaaðilum að allt hefði gengið vel - fréttabannið algjört hneyksli.

Það þarf að læra af þessum hryllingi.

Ég minni aftur og enn á útihátíðina sem til stóð að hafa árlegan viðburð í Englandi. Eftir eina nauðgun, fyrst þegar hátíðin var haldin, taldi hið opinbera, sveitarfélagið og fleiri aðilar að ekki væri verjandi að stofna til samkundu með opinberu fé sem byði upp á aðstæður til slíkra voðaverka. Þess vegna urðu ekki fleiri \"hátíðir\" en þessi eina.

En hér eru bara allir í stuði og því haldið fram að ekki verði við ráðið. Best sé fyrir þolendur að haldið sé kjafti á meðan stuðið fer fram. Það laðar líka að fleiri gesti að segja seint og illa frá þessum hildarleik!

Fimm mannslíf í rúst. Fimm mannslíf.“

Svo mörg voru þau reiðu orð.

Að auki langar mig að spyrja hvort ekki sé orðið tímabært að þjóðin ræði þær breytingar sem eðlilegt sé að gera til hátíðarhaldanna í Eyjum?

Á sama tíma og mörg önnur sveitarfélög hafa kúvent frá stjórnleysi fyrri verslunarhelga og taka nú fjölskyldugildi fram yfir ógnarstuðið endalausa sem ár eftir ár hefur þann fylgifisk að mannslífum er tortímt, stendur eitt sveitarfélag enn fyrir opinberri uppákomu, sem minnir helst á draug úr fortíðinni.

Ég segi eins og lögmaðurinn sem gagnrýndi hæstaréttardóminn, það er viðbúið að þeir sem gagnrýna þetta fyrirkomulag fái „helling af skít“ yfir sig. Enda láta hagsmunaðilar því sjaldnast ósvarað þegar ráðist er að efnahagslegum björgum þeirra – fyrir utan alla gleðina sem vitaskuld 95% gesta upplifa á Þjóðhátíð og margir vilja eðlilega verja. En það verður bara að hafa það þótt skítnum fari að rigna. Það er lítið mál að taka við skít í formi ummæla í kjölfar umdeildra skrifa.

Að verða fyrir því að líkami okkar og sál séu svívirt með verstu tegund ofbeldis er aftur á móti svo mikill skaði að óljóst er hvort nokkur geti aftur orðið heill eftir slíka árás.

Þess vegna getur verið rétt að skrifa reiður og birtast stundum reiður.

Og nei, þetta er ekki héraðsbundin árás á Eyjamenn, þetta er tilraun til samfélagsumræðu. Það væri dauð þjóð sem ekki brygðist við svona voðafréttum.