Öll erum við á ólíkum stað á COVID-kúrfunni í leik og starfi, en eitt er víst er að sviðsmyndin í lífinu er framandi og önnur en áður var. Veiran hefur litað alla þætti lífsins og vanmáttug höfum við tekið einn dag í einu og reynt að fóta okkur í óvissu. Við höfum verið þvinguð til að skoða hversdaginn frá öðru sjónarhorni og meðvituð um stærð áskorana höfum við ekki getað annað en staðið saman. Við höfum öll verið berskjölduð og blússandi mannleg og tekist að leiða saman ólíka hópa þvert á flokka og stærðir, staðráðin í að komast í gegnum skaflana. Síðustu misserin hafa líka verið tími fyrir samfélagsrýni sem hefur varpað nýju ljósi á ýmis mál til dæmis hvað er hægt að gera ef við stöndum saman, tökum ákvarðanir og ætlum okkur eitthvað.
Hugrekkið smitandi
Við höfum lifað mikið endurmat að undanförnu og eitt af því sem hefur verið ofarlega í umræðunni er virði starfa. Heilbrigðisstarfsfólk hefur staðið í framlínunni, ásamt kennurum, fólki í sorphirðu, starfsfólki verslana og þannig mætti áfram telja. Hugrekkið hefur verið smitandi og innlegg þessara hópa hefur verið mikils metið. Við þessar ömurlegu aðstæður í heimsfaraldri höfum við loksins látið þessar starfsstéttir finna fyrir mikilvægi sínu. Það voru teknar ákvarðanir og ríkisstjórnin hefur fengið verðskuldaða jákvæða endurgjöf með að treysta á sérfræðinga sem hafa gefið og miðlað á afar óeigingjarnan máta. Nú þarf Ísland að halda áfram að vera leiðandi, betra og eftirsóknaverðara. Festa í sessi það góða starf sem hér er unnið og vera í fararbroddi áfram.
Kvennastéttir skrifa sig inn í söguna
Ísland hefur vakið athygli heimsbyggðarinnar fyrir viðbrögð við veirunni og þetta er ekki í fyrsta sinn sem þjóðin slær í gegn á heimsvísu. Verðskuldaða athygli höfum við til dæmis fengið síðustu ár fyrir að vera skást í heimi á sviði jafnréttismála. Það eru svo konur í öflugum kvennastéttum í framlínunni á tímum COVID sem hafa skrifað sig inn í söguna. Svona líka rækilega að það verður spennandi að sjá hvort tími fjölbreytileikans sé loksins kominn og tími sóunar á man-auði sé að líða undir lok. Samfélagið okkar má ekki við sóun man-auðs, það höfum við svo sannarlega séð á síðustu vikum.
Við ætlum áfram og upp!
Í vikunni sem leið fagnaði Félag kvenna í atvinnulífinu FKA 21 árs afmæli sínu og þegar horft er til baka er framlag félagskvenna sem hafa lagt félaginu lið, rutt brautina og skilað okkur betra þjóðfélagi algjörlega ómetanlegt. FKA stuðlar að tengslamyndun, sýnileika félagskvenna og er hreyfiafl til framfara í samfélaginu. Þakklæti er efst í huga á slíkum tímamótum og vænta má stórra áfanga í starfinu - því nú vitum við öll hvað skiptir máli. Við ætlum áfram og upp!
Raunveruleiki allra með í reikninginn!
Ætla má að ekkert verði eins eftir COVID og þegar unnið er að framförum í samfélaginu hlýtur útgangspunkturinn að vera heilbrigt líf og gera betur. Raunveruleiki allra kynja verða að vera tekinn með í reikninginn við hönnun á infrastrúktúr framtíðarinnar, uppbyggingu og endurhönnun á samfélaginu eftir þessa stökkbreytingu. Við vitum að við getum ef við viljum, stöndum saman og þurfum. Það þarf bara að taka ákvörðun – og jafnrétti er nákvæmlega það! Jafnrétti er ákvörðun!
Höfundur er framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu.
Birtist fyrst í Fréttablaðinu