Það er bráðfyndið að fylgjast með því hvernig formaður Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðið rembast við að túlka afhroð Sjálfstæðisflokksins í kosningunum sem sigur. Flokkurinn tapaði 5 þingsætum og er kominn niður í 16 þingmenn sem er það sama og árið 2009 í kjölfar hrunsins. Enginn flokkur tapaði eins mörgum þingsætum og Sjálfstæðisflokkurinn. Þá tapaði rikisstjórn Bjarna Benediktssonar 12 þingsætum á sama tíma og stjórnarandstaðan bætti við sig þingsæti. Þessa ömurlegu niðurstöðu reynir Bjarni að túlka sem sigur vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn en ennþá stærsti flokkurinn þrátt fyrir að hafa tapað flestum þingmönnum!
Undir þessa einkennilegu söguskýringu tekur ritstjóri Morgunblaðsins í leiðar blaðsins í dag. Það er svo sem ekkert nýtt að Davíð Oddsson, höfundur hrunsins, reyni að falsa samtímasöguna á Íslandi. Það hefur hann gert linnulaust á síðum Morgunblaðsins hin síðari ár. Það er hins vegar alltaf að koma betur og betur í ljós að hann átti stóran þátt í að ýta hruninu af stað. Nú síðast er því lýst með áþreifnlegum hætti í nýju leikriti Borgarleikhússins, Guð blessi Ísland.
Dómgreindarleysi fráfarandi forsætisráðherra og Morgunblaðsins skiptir hins vegar engu máli. Aðrir stjórnmálaflokkar sjá þessa niðurstöðu með skýrum hætti og það getur ekki verið að neinn þeirra muni sætta sig við að sá sem tapaði kosningunum leiði nýja ríkisstjórn.
Fljótlega mun skýrast hvort Sigurður Ingi Jóhannsson eða Katrín Jakobsdóttir muni leiða næstu ríkisstjórn. Aðrir koma ekki til greina.
Rtá.