Frétt Hringbrautar sl. mánudag um ítrekuð mistök við útfarir vakti mikla athygli og er ein mest lesna frétt fjölmiðilsins síðan Hringbraut hóf göngu sína og var víða vitnað til.
Nokkur umræða hefur í kjölfar fréttarinnar orðið í samfélaginu um mikilvægi fagmennsku og nærgætni á þessum erfiðustu stundum lífs okkar þegar ástvinir falla frá. Þegar beðið er um lokaða kistu fyrir athöfn verður kistan vitaskuld að vera lokuð en ekki opin. Um það og fleira fjallaði frétt Hringbrautar en eigi að síður verður að segja útfararstofunni sem fréttin fjallaði um til hróss að eftir að Hringbraut fór í málið, játaði stofan mistök sín og mun bregðast við með samtölum og e.t.v. bótum til aðstandenda.
En svo má líka stundum gera grín að dauðanum, þótt þeir sem eigi um sárt að binda vegna mistaka við útför sjái sennilega fæstir neinn húmor í slíku. Þráinn Bertelsson rithöfundur lék sér að hugmyndum og orðum af fimi í færslu á facebook í gær. Hann skrifaði:
„Í morgun tók ég eftir því að ónefnd Fb-vinkona mín hefur sent mér hvatningu til að setja \"like\" við fb-síðu Útfararstofu Reykjavíkur, þótt ég skilji reyndar ekki hvað \"like\" frá manni sem ekki hefur ennþá prófað viðskiptin hefur eiginlega upp á sig.
Maður er auðvitað þakklátur fyrir vinsamlegar ábendingar um hvar maður geti fengið góða þjónustu, en nekrófílar í hópi fb-vina eru samt beðnir um að sýna mér ofurlitla þolinmæði því að ég er ekki dauður enn...“
Góður!