Kæru lesendur á hringbraut.is! Kvikan með Birni Þorláks er nýr rafrænn vettvangur fyrir almenning. Í þessu vefhólfi mun í framtíðinni gefa að líta ýmis samfélagsmálefni, greiningar, fréttaskýringar, rannsóknir, persónulega pistla og jafnvel fleira sem komið gæti við kviku lands og þjóðar. Kvikan verður uppfærð með nýju efni daglega.
Það sem er kvikt marar oft undir harðri og staðinni jarðskorpu. Kvikan á að vera á iði eins og þjóðfélagið okkar. Við búum í samfélagi þar sem mikill meirihluti fólks ætti flesta daga að geta þakkað ýmis þau forréttindi sem fylgja búsetu hér á landi. Eigi að síður hefur hin síðari ár orðið til eitthvað sem kalla mætti trúnaðarbrest milli borgara og ýmissa stofnana samfélagsins. Fjölmiðlar þjóna lögbundnu hlutverki sem lýsandi og greinandi stofnanir á veruleikanum. Kvikunni er ætlað að auka hlut greinandi umfjöllunar í frétta- og samfélagsmálum og mun ekki aðeins streyma með hinu sammannlega heldur verður hún þegar efni standa til gagnrýninn og beittur vettvangur.
Með það að markmiði rennur Kvikan af stað.
Kvikan er fyrir þig – þú ert hluti af henni.