Að koma óorði á heila þjóð

Afstaða íslenskra stjórn­valda gegn fólki á flótta hefur harðnað mjög á síð­ustu árum. Það skýtur skökku við þegar bar­átta gegn þeim ógöngu sem mann­kynið hefur komið sér í er á ábyrgð allra jarð­ar­búa; líka Íslend­inga.

Fátækt, stríð og ham­fara­hlýnun eru allt ástæður þess að fólk flýr heim­kynni sín. Mörgum eru það þyngstu skrefin sem stigin eru um ævina. Fæstir for­eldrar leggja í hættu­lega óvissu­för með börn sín nema brýn hætta steðji að eða lífið sjálft liggi við. Mjög lít­ill hluti þessa fólks kemur hingað til okkar og þráir öryggi fyrir börnin sín í því frið­sæla, jafna og ríka sam­fé­lagi, sem leið­togar þjóð­ar­innar guma svo af á alþjóða­vett­vangi.

Rík­is­stjórn­inni ber engin skylda að vísa frá börnum í leit að öryggi og vernd. Hún velur aftur á móti að gera það. Bara á þessu ári hefur 75 börnum verið neitað um alþjóð­lega vernd - þar á meðal þeim Mahdi, Ali, Zaineb og Amir sem fjallað hefur verið um í fjöl­miðlum að und­an­förnu, og á að senda út í óvissu og óör­yggi til Grikk­lands. Við getum að sjálf­sögðu valið að veita þessum börn­um, og öðrum börnum í sömu stöðu, vernd.

Nú seg­ist ráð­herra vilja end­ur­skoða fram­kvæmd útlend­inga­lag­anna þegar kemur að börnum - en hversu mörgum börnum ætlar rík­is­stjórnin að vísa héðan burt á meðan hún skipar enn eina nefnd­ina? Hvernig hjálpar það þeim áhyggju­fullu börnum sem eiga nú yfir höfði sér lögregluheimsókn?

Í frum­varpi sem rík­is­stjórnin ræddi á fundi þann 2. apríl og lagt var fyrir Alþingi nokkrum dögum síð­ar, liggur fyrir að eigi að herða útlend­inga­lög­gjöf­ina - þrátt fyrir for­sæti flokks með yfir­lýsta stefnu um mann­úð­legri mót­t­töku fleira fólks á flótta. Þá á að þrengja enn frekar að rétt­indum fólks í leit að alþjóð­legri vernd og auð­velda jafn­vel brott­vís­anir til landa eins og Grikk­lands.

Það er í raun sár­ara en tárum taki ef ekki hefur þurft nema rúm hund­rað ár fyrir íbúa eins rík­asta lands í heimi að gleyma því að Íslend­ingar sjálfir flúðu í þús­unda­tali vestur um heim. Þessum nöt­ur­lega kafla Íslands­sög­unnar gerir Hall­dór Lax­nes skil í Brekku­kotsan­nál og lætur sögu­mann bók­ar­innar Álf­grím m.a. segja þessi orð:

„Í það mund sem ég var að verða til, þá var þar í kot­inu mikil örtröð af því fólki sem nú á dögum heitir flótta­menn; það er að flýa land; það leggur á stað með tárum úr heim­kynnum sínum og ætt­bygð af því svo illa er að því búið heima­fyrir að börn þess ná ekki þroska heldur deya.“

Þessi orð eru vissu­lega upp úr skáld­sögu en lýsa þó nöprum veru­leika þess tíma á Íslandi.Þau nísta inn að beini, ekki síst vegna þess að það er svo stutt síðan for­feður okk­ar, jafn­vel afar og ömm­ur, gátu almennt ekki tryggt börnum sínum öryggi og mikil óvissa var um hvort þau kæmust yfir­höfuð á legg.

Það er aumt ef rík­is­stjórn þjóð­ar, sem bjó við slíkar aðstæður fyrir örfáum ára­tug­um, kýs að vísa börn­um, sem jafn­vel hafa myndað hér tengsl og fest ræt­ur, út í full­komið óör­yggi. Það er hneisa sem rík­is­stjórnin ber auð­vitað ábyrgð á en kemur þó óorði á alla þjóð­ina.