Að fá far yfir lítinn hjalla

Það kann að þykja umdeilanlegt að skrifa eins persónulegan pistil og hér stendur til að gera en það er eitthvað við þennan dag þegar sjö ár eru liðin frá efnahagshruninu og Guð blessi Ísland! sem verður til þess að maður leggur niður varnirnar og leitar í djúp einlægninnar. Vonandi eru lesendur til í að gera slíkt hið sama eitt andartak.

Sama dag og efnahagslíf Íslands féll til jarðar með miklum dynk hrundi mitt efnahagslíf og fjölskyldunnar í leiðinni og kannski þitt líka. Það skýrðist ekki bara af gengisfalli íslensku krónunnar heldur varð ég atvinnulaus  skömmu eftir hin ábúðarmiklu orð Geirs Haarde. Kannski þú líka?

Þá varð að hugsa hluti upp á nýtt.

Ég fann lífsbjörg í heimilinu, fann tilgang í nýfæddu barni sem þurfti mikla umönnun. Ég fór að endurmeta gildi fjölskyldulífs og skrifaði um þá reynslu bók. Að hafa alltaf eitthvað fyrir stafni var lykilatriði þá mánuði sem ég var atvinnulaus. Kannski var það eins hjá þér.

Svo fór ég í skóla þar sem 130.000 króna námslán urðu að duga á mánuði. Konan hafði þó fulla vinnu en var engin hálaunakona, ekki frekar en konur eru að jafnaði í heimi hins kynbundna launamunar.

Þar sem við hjónin vorum ekki skuldsett fyrir hrun bjargaðist þó einhvern veginn að standa í skilum en einungis með því að skera allan munað niður, þá meina ég allan munað. Ég rakaði hárið mitt sjálfur, því það voru ekki til peningar fyrir klippingu. Ég veiddi silung í matinn, bjó til bollur úr honum sem eru verstu bollur sem nokkur hefur borðað en niður fóru þær nú samt! Ég fór á puttanum milli staða og komst að því að útlendingar voru viljugri að leyfa mér að sitja í en samlandar. Skrifaði pistil í Neytendablaðið um verðhækkun á kexi sem við höfðum ekki efni á. Í tvö ár fórum við aldrei út að borða, aldrei í bíó, þurftum að aga okkur sem aldrei fyrr frá morgni til kvölds, hlýtur að hafa verið samfelld kvöl og pína – ekki satt? Eða hvað heldur þú?

Reyndar ekki. Viti menn, þetta var að mörgu leyti gefandi og lærdómsrík reynsla þótt erfið væri hún líka, gefandi og lærdómsrík af því að hún var tímabundin. Landið fór smám saman að rísa eins og kannski hjá þér líka? Stór hluti þjóðarinnar hefur þó aldrei komist aftur á skrið að loknu hruni. Ég á vini sem gáfust upp og þú átt eflaust þannig vini líka.

Ég er þakklátur kerfinu að hafa gert okkur hjónum kleift að lifa hrunið af án þess að lenda í óleysanlegum greiðsluvanda. Ég veit líka að við vorum heppin með að kerfið studdi á þessum tíma ágætlega við barnafólk. Tvö ný líf kenndu mér margt um æðruleysi, forgang og þakklæti. Við erum eina þjóðin í heiminum sem eykur fæðingartíðni í kreppu, við Íslendingar vitum stundum okkar viti!

Það sem stendur eftir í huganum á þessum degi er að að nú veit ég af eigin reynslu að auður kaupir ekki endilega hamingju heldur miklu fremur mannlegir verðleikar og hvaða tækjum við erum búin til að takast á við krísur. Tímabundna fátækt er hægt að takast á við. Að festast í gildrunni hlýtur aftur á móti að vera algjört víti. Ég man að úthaldið var að bresta þegar efnahagssólin tók að skína á okkur á ný. Við þraukuðum vegna þess að hvatarnir voru svo miklir og þrátt fyrir allt var þessi hugsun líka hressandi að vera innan um allt fólkið sem hafði ákveðið að nýta hrunið til að búa til betra samfélag fyrir komandi kynslóðir. Hugsjónir sannarlega ljómuðu manna á millum á þessum tíma. Reiðin var mikilvæg sem réttlætisviðbragð eftir að spillingin varð okkur öllum ljós en engum ferst vel sem festist í reiðinni. Ég trúi á umbætur umfram hefndina, kannski er það eins með þig?

Á sjö ára afmæli efnahagshrunsins hlýtur það að vera verkefni okkar allra að reyna á öllum tímum að koma í veg fyrir að samborgarar okkar falli fyrir borð efnahagslega, einkum þegar djúpar kreppur skapast.

Við ættum kannski að taka þá ókunnu farþega upp í bílinn sem þurfa aðstoð, gefa þeim far milli heima þegar þeir þurfa. Á löngu og lýjandi ferðalagi getur skipt sköpum að fá aðstoð frá fólki til að komast yfir þótt ekki sé nema einn lítinn hjalla. Það er eitt af því sem hrunið kenndi mér og kannski þér líka...