Ábyrgðarlaus typpakeppni

Setjum okkur í spor sýrlenskra flóttamanna. Tökum ímyndað dæmi, gefum okkur að jarðskorpan hafi gert okkur grikk, að Ísland hafi eyðilagst í eldsumbrotum. Þeir sem lifa af eiga allt sitt undir alþjóðaumhverfinu. Við fyllum jafnt trillur sem fiskiskip af landflótta Íslendingum sem allir eiga það sameiginlegt að hafa misst ástvini, allir hafa misst allt. Við vonumst eftir björgun en á siglingunni suður berast okkur fréttir af því að evrópulöndin sem við eigum allt undir telji ábyrgðarlaust að bjarga þessum Íslendingum strax.

Kannski er ekkert lýsingarorð í íslenskri tungu misnotaðra meðal stjórnmálamanna en einmitt orðið \"ábyrgðarlaust\". Það er oft notað til að breiða yfir pólitísk voðaverk. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir ábyrgðarlaust að Ísland opni strax dyrnar fyrir hundruð sýrlenskra flóttamanna þar sem innviðir, geðlækna- og sálfræðiþjónusta, sé ekki 100% hér á landi fyrir blessað fólkið. Það er eins og að segja manni sem er að drukkna að ekki sé hægt að bjarga honum af því að það eigi eftir að kaupa fresca og setja það í ísskápinn ef hann yrði þyrstur síðar! Hvað þýðir orðið ábyrgðarlaust í þessu samhengi?

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld var ekki að heyra annað á Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra en að hann stillti stöðu Íslands upp í einhverri störukeppni gagnvart Brussel. Hin rómaða sérstaða Íslendinga notuð sem fyrirstaða gegn mennsku. Mennsku sem almenningur hér á landi hefur þó sýnt bæði í hjarta og verki með því að bjóðast jafnvel til að hýsa flóttafólk í litlum kjallaraíbúðum, færa  systkini saman í eitt herbergi úr tveimur. Af því að við erum manneskjur.

22 þingmenn hafa lagt fram tillögu um að Ísland bjargi 500 flóttamönnum. Staðan er einstæð á heimsvísu, öllum löndum ber að leggja lið, mennskuna eigum við sameiginlega sem auðlind, allar manneskjur. Mennskan er sammannleg, hún spyr ekki um trú, hörundshátt, uppruna eða menningu.

Ógn Sýrlendinga er þyngri en orð fá lýst. Þeir flýja ógnarstjórn sem er verri en náttúruhamfarir. Okkur ber öllum að svara neyðarkallinu. Strax. Alvara málsins er meiri en svo að hægt sé að snúa henni upp í eitthvað sem minnir helst á pólitíska typpakeppni, til að firra Ísland ábyrgð frá alþjóðlegri skyldu.