Ég var 18 ára þegar ég kom út úr skápnum. Ég verð ávallt þakklát vinkonum mínum úr menntaskóla sem fylgdu mér í fyrsta sinn í Samtökin 78 þar sem mig skorti kjark til að fara ein. Ég gleymi aldrei léttinum og frelsistilfinningunni sem fylgdu því að hitta í fyrsta sinn fólk sem var eins og ég.
Fyrsta gangan mín var niður Hverfisgötu en þar löbbuðum við nokkrar hræður með mótmælaskilti og ég man að það eina sem ég hugsaði var að vonandi myndi ég ekki sjást í sjónvarpinu. Ári síðar var göngunni breytt í gleðigönguna og ég hágrét þegar þúsundir Íslendinga mættu til að styðja okkur.
Það hefur verið magnað að upplifa breytingarnar á íslensku samfélagi síðastliðin 25 ár. Í dag á ég þessi dásamlegu tvö börn með minni frábæru konu en við eigum einmitt 13 ára brúðkaupsafmæli í næstu viku.
Á þessu degi fyllist ég alltaf botnlausu þakklæti, gleði og stolti yfir því að búa í samfélagi sem styður fjölbreytileikann og virðir mannréttindi okkar allra. Takk Ísland.
Til hamingju með daginn öll sömul, ástin er svarið!
Höfundur er leikstjóri og leikhússtjóri Borgarleikhússins.