Jón Hjartarson, sem lengi var skóla- og fræðslustjóri á Suðurlandi, sagði frá því í þættinum Lífsstíl í gærkvöld hvernig hann skipti um ham á miðjum aldri og byrjaði að stunda fjallahjólreiðar af kappi. Barátta við krabbamein og síðar krankleiki í mjöðm varð til þess að hugsaði sinn gang um fimmtugt og afréð að verða sér úti um dægradvöl sem yki á lífsgæði hans og hamingju, en væri honum um leið mikil og góð heilsubót. Og niðurstaðan var að fara á hjóli upp um fjöll og firnindi sem Jón lýsti í þættinum sem ævintýralega skemmtilegri heilsubót sem hentaði fólki á öllum aldri.
Jón er enn að og segir aldurinn enga hindrun. Fram undan er áttræðisaldurinn og þegar byrjað að skipuleggja langferðir með trússi þvert og endilangt yfir landið í góðra vina hópi. Hjólreiðar séu örugg íþrótt og menn velji dagleið sem ofgeri ekki neinum í hópnum. Þær séu upplögð leið fyrir fólk í eldri kantinum sem vilji skoða landið sitt, en á ef til vill orðið erfitt með að ganga á tveimur jafnfljótum um mjög langan veg.
Í þættinum benti Jón á margar frábærar fjallahjólaleiðir, svo sem yfir Kjöl, um Strandir norður, Fjallabak nyrðra og syðra og norður fyrir Hofsjökul.
Hægt er að nálgast þáttinn í heild sinni undir sjónvarpsflipanum á vef Hringbrautar.