Nú væri voða gaman að hræra í léttan og skemmtilegan laugardagspistil, flestir í fríi, veðrið til friðs, landið farið að rísa samkvæmt fjárlögum, matarboð og samkvæmi fram undan hjá þeim sem gera sér glaðan dag um helgar.
Það er bara einn skuggi sem vomir yfir mörgum okkar sem lítum á landsmenn sem eina fjölskyldu. Þessi skuggi trompar í augnablikinu helgargleðina í mínu hjarta. Ég er að tala um mál Fanneyjar Bjarkar leikskólakennara frá Vestmannaeyjum.
Í gær kvað Arnfríður Einarsdóttir dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur upp úrskurð um að íslenska ríkinu væri ekki skylt að veita Fanneyju ný lyf sem meira en 90% líkur eru á að myndu bjarga lífi hennar og tryggja henni góða heilsu. Hún er illa farin af lifrarbólgu C, alltaf með hita, kostnaður við meðferð hennar gæti numið um 10 milljónum króna. Það eru til ný lyf sem hafa upprætt veiruna hjá öðrum sjúklingum. Til eru dæmi um lyfjakostnað sem hleypur á hundruðum milljóna en íslenska ríkið hefur þó samþykkt, sú er ekki raunin í tilviki Fanneyjar. Hringbraut vann ítarlega úttekt um málið á dögunum.
Það er ekki óeðlilegt að embættismenn ríkisins séu ánægðir með að lagarammar haldi samkvæmt dómi sem og fyrri ákvarðanir ríkisins í tilteknum álitamálum. Svo virðist þó sem bæði dómarinn og embættismennirnir líti undan grundvallaratriðinu. Það var á ábyrgð íslenska ríkisins að lífi Fanneyjar var rústað. Ríkið var gerandi þegar heilbrigðisstarfsmenn gáfu henni blóð eftir barnsburð. Blóðið var sýkt af lifrarbólguveiru.
Öll okkar hugsun um eðlileg viðbrögð innviða stjórnsýslu hefur hlotið sár í þessu máli. Við hugsum að þótt ekki væri nema vegna skaðabótaskyldu ríkisins beri því að bæta Fanneyju þann skaða sem ríkið olli henni. Að auki vakna spurningar um mannúð og jöfnuð og svo eru til lög um réttindi sjúkra sem segja að þeim skuli tryggja bestu mögulega þjónustu.
Það eru mörg dæmi þess að ráðherrar taki sig til, fljúgi út á land í kjördæmið sitt, horfi yfir þorp sem hefur orðið fyrir náttúruhamfaraskaða, kveði ábúðarmiklir í kvöldfréttum framan við sjónvarpsmyndavéla upp úr að bráðaaðgerða sé þörf út af einstöku tilfelli og útvegi leiftursnöggt fé til björgunar. Í sama ljósi ber Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra að bregðast strax við nú. Honum ber að bjarga lífi Fanneyjar. Þótt ekki væri nema vegna skaðabótaskyldu ríkisins, sem rústaði lífi hennar og heldur því áfram með hverju degi sem líður án lausnar.
Þið fyrirgefið – en þetta mál kemur við kvikuna í þeim sem hér skrifar.
Þolinmæði mín yfir lagatæknilegri orðræðu er engin á meðan sandurinn rennur í líftímaglasinu hennar Fanneyjar.