97% íslenskra ungmenna sofa of lítið

97% ís­lenskra ung­menna fá ekki næg­an svefn á virk­um dög­um og þriðjung­ur þeirra sef­ur í sex klukku­stund­ir eða minna á virk­um dög­um. Dreng­ir sem fá of lít­inn svefn eru lík­legri til að verða feit­ari en jafn­aldr­ar þeirra sem sofa leng­ur.

Þetta er meðal þess sem kem­ur fram í rann­sókn Hrafn­hild Eir­ar Hermóðsdótt­ur, sem ný­lega lauk meist­ara­prófi í íþrótta- og heilsu­fræðum við Há­skóla Íslands og frá er greint í Morgunblaðinu í dag.

Rann­sókn­in leiddi m.a. í ljós að sjö klukku­stund­ir voru al­geng­asti svefn­tími ung­ling­anna á virk­um dög­um og al­geng­asti svefn­tím­inn um helg­ar var níu tím­ar. Þetta átti við um bæði kyn­in, að því er blaðið segir. Þar kemur jafnframt fram að 33% stráka og 32% stelpna sváfu sex tíma eða minna á virk­um dög­um og af öll­um þátt­tak­end­um upp­lifðu 54% að þau fengju ekki næg­an svefn: \"Auðvitað er per­sónu­bundið hversu lang­an svefn fólk þarf, en ég er ekki viss um að ung­menni geri sér al­mennt grein fyr­ir því hvað það skipt­ir miklu máli að sofa vel,“ seg­ir Hrafn­hild við blaðið.

Hrafn­hild seg­ir þar einnig að huga mætti að meiri fræðslu um mik­il­vægi svefns: \"Það hef­ur verið lögð mik­il áhersla á hreyf­ingu og mataræði, en minni áhersla á svefn­inn. Við eig­um það til að van­meta gildi svefns og fórna hon­um fyr­ir aðrar dag­leg­ar at­hafn­ir og það get­ur komið niður á heilsu og líðan,“ segir hún við blaðið.