90% geta ekki lifað á lágmarksbótum

Nýstárleg hugmynd Pírata um svokölluð borgaralaun, ríflegri umbun til hvers og eins sem þarf pening til að lifa í stað núgildandi bótakerfis, var til umræðu í Kvikunni á Hringbraut í vikunni. Þáttinn má sjá hér.
 
90% landsmanna telja sig skv. könnun Gallup fyrir ÖBÍ ekki geta lifað af þeim 172.000 króna ráðstöfunartekjum sem hluti landsmanna fær nú. Spurt var í Kvikunni á Hringbraut hvort það væri réttlætismál að bætur verði hækkaðar afturvirkt líkt og laun þeirra sem fengu úrskurð frá Kjararáði um daginn um stórfellda hækkun.
 
Brynjar Níelsson þingmaður og Halldóra Mogensen varaþingmaður Pírata ræddu málið í Kvikunni og bar nokkuð á milli, ekki síst út frá þeirri heimspekilegu hugmynd hvort það væri í eðli mannskepnunnar að bjarga sér sjálf burtséð frá hvötum eða hvort hætta væri á að einstaklingar myndu sjúga það kerfi sem veitir þeim viðunandi laun burtséð frá atvinnuframlagi.
 

Barnlaus einstaklingur, sem býr einn í eigin húsnæði, þarf að hafa 348.537 kr. í ráðstöfunartekjur á mánuði (eða 482.846 kr. fyrir skatt) til að geta mætt eðlilegum útgjöldum skv. gögnum frá ÖBÍ. Á þeim tíma (2014) þegar álitsgerð var unnin yfirr ÖBÍ voru mánaðarlegar ráðstöfunartekjur örorkulífeyrisþega, sem býr einn og fær greidda heimilisuppbót, um 187.507 kr. á mánuði en 172.000 kr. hjá þeim sem bjó með öðrum, 18 ára eða eldri. Ríflega 90% svarenda sögðust ekki geta lifað af svo lágri framfærslu.

 

Í áskorun ÖBÍ segir: „Ágæti þingmaður viltu skapa samfélag fyrir alla, þar sem lífeyrisþegar og börn þeirra hafa tækifæri til virkar samfélagsþátttöku en ekki að þeim séu settar þær kjaraskorður sem þeir búa við nú? Þú hefur valdið til að breyta!“

Í þingsályktunartillögu Pírata sem lögð var fram í annað skipti í síðustu viku um borgaralaun í stað þess flókna bótakefis sem nú er við lýði hér á landi segir: „Hugmyndin um skilyrðislausa grunnframfærslu er hugmynd að kerfi sem ætlað er að leysa almannatryggingakerfið af hólmi eða í það minnsta einfalda það verulega, gera það réttlátara og sömuleiðis uppræta ákveðinn innbyggðan ójöfnuð í samfélaginu.“

Bragi Þór Antóníusson, hefur ritað BA-ritgerð um borgaralaun. Þar segir m.a.: „Að fara frá því að vera atvinnulaus og yfir í það vera virkur á vinnumarkaði getur falið í sér allskyns aukin útgjöld og raskanir fyrir fjölskylduna. Þannig getur það verið meiriháttar mál að þurfa að flytja landshorna á milli og getur því fylgt töluverður kostnaður. Sé aðili að fara út á vinnumarkaðinn eftir að hafa verið atvinnulaus bætast við ýmis útgjöld sem ekki þurfti að gera ráð fyrir áður fyrr. Til dæmis þarf að koma sér til og frá vinnu og hugsanlega þarf að koma börnum fyrir í dagvistun eða leikskóla hafi það ekki verið gert nú þegar svo eitthvað sé nefnt. Þetta þýðir að til þess að fólk sjái sér hag í því að hætta á atvinnuleysisbótum og fara út á vinnumarkaðinn þurfa launin sem bjóðast að vera hærri en atvinnuleysisbæturnar um því sem það kostar að fara út á vinnumarkaðinn. En ekki er nóg að launin séu hærri því að gera má ráð fyrir því að fólk meti tímann sinn til fjár svo eitthvað sé nefnt. Það er því þekkt að fólk festist í velferðarkerfinu eða á atvinnuleysisbótum þar sem hvatinn til þess að fara að vinna er ekki nægilegur til þess að það borgi sig. Þetta fyrirbæri er í daglegu tali kallað atvinnuleysisgildran eða velferðargildran (Merkl & Snower, 2008).“

Einnig segir: „Ein rökin fyrir algildri grunnframfærslu eru þau að með henni sé vinnuframlagi kynjanna gert jafnara vægi. Greidd vinna sé ekki eina vinnuframlagið sem hefur jákvæð áhrif á samfélagið og með algildri grunnframfærslu sé hægt að sinna störfum í þágu fjölskyldu og samfélags óháð áhyggjum um laun. Raunin hefur verið sú að kvenfólk innir af höndum ólaunuð störf í meira mæli en karlmenn.“

Á þeim heimilum þar sem karlmaðurinn er fyrirvinnan og konan er heimavinnandi má færa rök fyrir því að karlmaðurinn vinni launaða vinnu í krafti þess að konan vinni ólaunaða vinnu heima fyrir við rekstur heimilis og fjölskyldu. „Ef kemur til þess að slíta samvistum er fyrirvinnan fjárhagslega öruggari en heimavinnandi einstaklingurinn (í flestum tilfellum, konan). Því geta konur orðið fastar í slæmu, jafnvel ofbeldisfullu, sambandi þar sem fjárhagslegt óöryggið sem fylgir því að slíta samvistum við manninn getur virst óyfirstíganlegt vegna þessa ójafnvægis kynjanna. (Ironmonger, 1989) (Christensen, 2003)“

Í þingályktunartillögu Pírata er vitnað til þess að Stefán Ólafsson, formaður stjórnar Tryggingastofnunar, hefur lýst göllum almannatryggingakerfisins þannig að það sé flókið og ógagnsætt. Í því séu of margir bótaflokkar, samskiptaörðugleikar séu milli almannatrygginga og lífeyrissjóða með óheppilegri virkni skerðingarreglna (tekjutenginga), lífeyrir almannatrygginga sé of lágur og í kerfinu séu ófullnægjandi virknihvatar. „Bæta mætti við þessa gagnrýni hversu dýrt kerfið er í rekstri og hversu óvinsamlegt það getur verið þeim sem þurfa á því að halda. Þegar kerfi er óvinsamlegt er lítill hvati til að bera virðingu fyrir því eða fara vel með það. Flókið og óvinsamlegt kerfi eykur mjög líkurnar á bótasvindli.“

Einnig segir: „Almannatryggingakerfið byggist á skilyrtri grunnframfærslu sem felur í sér gífurlega upplýsingasöfnun og eftirlit. Flækjustig kerfisins gerir það að verkum að eftirlit er flókið og þungt.“

Aftur á móti hefur kostnaður við upptöku borgaralauna í stað bóta nú ekki verið reiknaður en hann er talinn gríðarlegur. Aftur á móti kann að vera að víða náist sparnaður, tilraunir með fyrirbærið víða um heim gefa vísbendingu um það.

(Fréttaskýring; Björn Þorláksson)