9 þúsund borgarbúar hjóla allt árið

Ný ferðavenjukönnun Reykjavíkurborgar leiðir í ljós að 57 þúsund borgarbúar stunda hjólreiðar, eða rétt liðlega helmingur þeirra. Þar af hjóla níu þúsund borgarbúar allt árið og láta þar með vetrarveðrin sig litlu skipta.


Könnunin leiðir í ljós að karlar hjóla meira en konur. Í heildina eru 6,6% ferða karla farnar á hjóli á móti 2,5% ferða kvenna. Hjólreiðarnar eru vinsælastar eftir því sem vestar dregur í borginni, en vestan Snorrabrautar fara 7,2% um á hjólum en hjólreiðar eru líka vinsælar í Hlíðum og Fossvogi. Athygli vekur að Breiðhyltingar eru litlir eftirbátar annarra Reykvíkinga í þessum efnum, en 4,5% þeirra stíga reglulega á bak sínum hjólhesti.


Hver hjólreiðaferð á höfuðborgarsvæðinu er að meðaltali rétt tæpar 14 mínútur samkvæmt ferðavenjukönnuninni, en að þeim forsendum uppfylltum að allir þeir sem hjóla allt árið til og frá vinnu í borginni má ætla að heilsufarslegur ábati þessara hjólreiða nemi einum milljarði á ári miðað við tölur frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni. Fyrir vinnuveitendur er gott að hafa þetta í huga því hver starfsmaður sem mætir til vinnu á hjóli sparar að jafnaði 40 þúsund krónur í færri veikindadaga á ári og 180 þúsund krónur í bílastæðakostnað.


Þá er einnig gott að hafa það í huga að ef menn hjóla fimm kílómetra í og úr vinnu daglega brenna þeir heitaeiningum sem nemur 174 bjórum á ári, 52 grilluðum steikum, 45 rækjusamlokum og nærri 700 brauðsneiðum. Þá sparast að auki um 60 þúsund krónur í bensíni ár hvert.


Hjólastígar í Reykjavík eru nú orðnir samtals 21,5 kílómetri. Þeir voru 6 kílómetrar fyrir fjórum árum.