Heilbrigðisráðuneytið áætlar að ráðstafa 840 milljónum króna til að stytta bið sjúklinga eftir mikilvægum aðgerðum. Á meðal þeirra aðgerða sem verða í forgangi eruliðskiptaaðgerðir, augasteinsaðgerðir, tilteknar kvenlíffæraaðgerðir og brennsluaðgerðir vegna gáttatifs. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.
Í tilkynningunni segir að um sé að ræða sömu aðgerðaflokka og voru settir í forgang samkvæmt mati Embættis landlæknis í sérstöku biðlistaátaki til þriggja ára, sem lauk á síðasta ári. Átakið skilaði umtalsverðum árangri og tókst að stytta biðtíma eftir öllum þeim aðgerðum sem um ræðir. Því væri ljóst að halda þurfi áfram á sömu braut svo biðtíminn lengist ekki að nýju. Sérstaklega væri mikilvægt að framkvæma eins margar liðskiptaaðgerðir og kostur er þar sem þörf fyrir slíkar aðgerðir aukist jafnt og þétt.
Til að mæta þörf fyrir auknum fjölda valinna aðgerða var með fjárlögum þessa árs ákveðið að veita varanlega fjárveitingu, samtals 840 milljónir króna, til að fjölga tilteknum mikilvægum aðgerðum samkvæmt mati landlæknis og sporna með því við langri bið sjúklinga. Líkt og í átaksverkefninu munu Landspítalinn, Sjúkrahúsið á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Vesturlands taka að sér að sinna umtalsvert fleiri aðgerðum en þær myndu gera að öllu óbreyttu, með þeim fjármunum sem sérstaklega eru ætlaðir í þessu skyni.