Vandfundið er stærra álitamál meðal þjóðarinnar en hvort hægja beri á virkjanastefnu í þágu stóriðnaðar. Nýting orkunnar, jafnt jarðhita og fallvatna, sem langmestan part eða um 85% af heildarframleiðslu þjónar þörfum stóriðju hefur lengi vakið hatrammar deilur. Mjög hart var tekist á um Blönduvirkjun svo eitt dæmi sé nefnt en umdeilanleiki virkjana og stóriðju stórjókst við Kárahnúka þegar víðernum, vatnasvæðum og einstæðu landsvæði var fórnað í þágu álbræðslu á Reyðarfirði. Komið hafa síðan upp ýmsar efasemdir vegna mengunar af völdum eitraðra lofttegunda, svo sem brennisteinsvetnis og flúors, auk þess sem lagngtímaáhrif koltvísýrings í andrúmslofti ógna heimsbyggðinni gervallri samkvæmt þeim vísindamönnum sem gerst til þekkja. Þessu tengt skapaðist harðvítug umræða nýverið um ræðu forsætisráðherra Íslands og markmið Sameinuðu þjóðanna að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 40% á 15 árum. Á sama tíma og stefnt er að betri loftgæðum þar sem almenningi verður gert að axla ábyrgð er verið að stíga mörg ný skref hér í stóriðnaði.
Hóf eða öfgar
Þrjú kísilver eru í pípunum auk fleiri framkvæmda sem flokkast undir stóriðnað. Telur Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við jarðvísindadeild HÍ, að stóriðjustefna stjórnvalda sé gamaldags, ósjálfbær og skaðleg. Jón Gunnarsson þingmaður sem kallaður hefur verið „holdgervingur stóriðjustefnunnar“, heldur því á hinn bóginn fram að stefna stjórnvalda sé hófleg en umræðan um stóriðnað og virkjanastefnu hér á landi sé öfgafull.
Þessi ólíku sjónarmið kom fram í fréttaskýringaþættinum Kvikunni á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í gærkvöld. Þar tókust Kristín Vala og Jón Gunnarsson alþingismaður á um orku- og virkjanastefnu. Sitt sýndist hvoru þeirra hvort stóriðjuáherslan væri ævintýri eða meira í ætt við martröð. Jón telur að okkur beri að nýta það sem hægt er að nýta og þar á meðal sé hin græna og sjálfbæra orka landsins. Hann viðurkenndi þó að of hratt hefði verið farið. Hellisheiðarvirkjun og kólnun geymisins þar var til umræðu í þættinum og kveikti spurningar um nýtingu jarðhita á fleiri svæðum, hvort nægar rannsóknir liggi fyrir áður en kapp er lagt á að beisla sem mesta jarðgufu á sem skemmstum tíma til að knýja nýjar stóriðjur. Ómar Ragnarsson umhverfissinni hefur bent á að það kunni að vera hagsmunamála fyrir hitaveitureikninga heimilanna að hægt verði á stóriðjustefnunni og best kunni að vera að setja punkt. Þá hefur verið varað við þensluáhrifum af stefnunni en bróðurpartur starfa við framkvæmdir er unninn af hálfu erlends vinnuafls sem nú er flutt inn í stórum stíl líkt og þegar farið var í framkvæmdir á Austurlandi.
Um 25% af útflutningstekjum Íslands koma frá stóriðju. Heildarfjöldi starfa við álverin þrjú er aftur á móti aðeins um 1,7% af vinnuafli í landinu samkvæmt nýlegri skýrslu Indriða H. Þorlákssonar. Doktor Kristín Vala segir ægikostnað liggja á bak við hvert starf sem skapað er fyrir stóriðju en sköpun starfa er leiðarstef þegar stjórnmálamenn taka umdeildar ákvarðanir um stóriðjur. Indriði Þorláksson, fyrrum ríkisskattstjóri, segir: „Ætla má að til lengri tíma hafi erlendar fjárfestingar ekki áhrif á atvinnustig og fjölda starfa í landinu. Virðisauki vegna launa álveranna er því ekki viðbót við hagkerfið en kemur í stað launa fyrir störf sem ella hefðu orðið til. Skammtímaáhrif og svæðisbundin áhrif á atvinnustig kunna þó að vera til staðar.“
Meira virði villt en virkjað?
Hinu staðbundna, byggðarökunum, hefur einnig oft verið gert hátt undir höfði þegar stefna stjórnvalda tengd virkjunum og iðnaði er skoðuð. Ýmsir hafa þó spurt líkt og Andri Snær Magnason rithöfundur og höfundur Draumalandsins, hvort e.t.v. væri betra að setja niður störf til dæmis í þekkingariðnaði víða úti á landi, jafnvel með atbeina hins opinbera eins og þegar ríkið samþykkti fjögurra milljarða króna fyrirgreiðslu vegna PCC á Húsavík.
„Það er mín staðfasta trú að landið sé meira virði villt en virkjað,“ sagði Snorri Baldursson, formaður Landverndar ekki alls fyrir löngu. Margir taka undir en margir eru á móti. Skoðanakannanir sem mæla hug landmanna hafa sveiflast nokkuð milli ára. Stundum er meirihlutastuðningur við stóriðjustefnuna en stundum ekki. Samkvæmt umræðum á Alþingi í sumar um Rammaáætlun er það mál manna að með vaxandi hagsmunum í ferðaþjónusta sé andstaða að aukast við stórðjustefnuna. Á sama tíma vakti athygli að forsætisráðherra blandaði saman kjarasamningum við umræður um rammaáætlun í sumar á þingi.
Karllægar áætlanir
Í Kviku-þættinum var sýnt innslag frá Húsavík þegar svokallaður PCC dagur fór fram sautjánda september síðastliðinn. Stærsta hótelið á staðnum var vettvangur veislunnar þar sem fyrirmenni komu saman, ræður voru fluttur, vín drukkið og fyrsta stóriðjuáfanga Húsavíkur var fagnað.
Sá sem tók á móti gestum í anddyri hótelsins, var áður bæjarstjóri Norðurþings og barðist á sínum pólitíska tíma mjög fyrir stóriðju fyrir Húsvíkinga. Hann er núna verkefnisstjóri PCC. Annað sambærilegt dæmi er frá Austurlandi þar sem Alcoa starfrækir álver sitt á Reyðarfirði.
Sumir sögðu það bera vitni um mátt efnishyggjunnar að sú saga flaug um salinn fyrir hátíðarávörpin á Húsavík, að fyrir hvert korter sem liði streymdu 70 milljónir króna í vasa þeirra sem hefðu launatekjur af hinum miklu framkvæmdum sem fylgja stóriðjunni.
Annað vakti athygli, hve karllæg samkundan var. Fyrir hverja eina viðstadda konu voru fimm karlar í salnum. Langflest störfin sem verða til á framkvæmdatíma vegna virkjana, orkumannvirkja, verksmiðjunnar og framkvæmda sem tengjast þeim eru einnig karlastörf.
Verðum að skapa störf!
Gleðin á Húsavík sveif yfir vötnunum meðal hátíðargesta daginn sem klippt var á borðann. Bæjarbúar og þar í hópi var forseti bæjarstjórnar Norðurþings sögðu tilfinningar þó blendnar. Fram kom í viðræðum fréttaskýringarþáttarins Kvikunnar við heimamenn að Húsvíkingar hafa í heil 30 ár beðið eftir að lóðin við Bakka, skammt norðan bæjarins, verði nýtt til stóriðnaðar. Það stendur álver fyrir austan, álver fyrir vestan, það er álver í Straumsvík og nú eru Norðvestlendingar komnir á biðlistann og vilja kínverskt álver í Húnavatnssýslu. Forsætisráðherra var viðstaddur undirritun viljayfirlýsingar við Kínverjana og styður verkefnið þótt engin orka sé til fyrir álverið. Hann var líka viðstaddur borðaklippinguna á Húsavík, enda er Norðausturkjördæmi kjördæmi ráðherrans. Í ræðu sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson flutti skömmu áður en klippt var á borðann á Bakka og markaði upphaf viðamikillla framkvæmda, minntist hann ekki á umhverfisáhrif, ekki á mengun, ekki á sjálfbærni, en hann talaði um störf. Sagði að sumir pólitíkusar hefðu mestan áhuga á samgöngum, aðrir heilbrigðiskerfinu, sumir væru uppteknir af menningu og listum en hann væri í hópi þeirra pólitíkusa sem teldu mikilvægast að búa til störf. Ef fólk væri án atvinnu skapaðist ekki tekjugrunnur, án vinnu væru hvorki listir né heilbrigðiskerfi, það skipti mestu máli fyrir stjórnmálamenn að átta sig á því, sagði forsætisráðherra. „Við verðum að búa til störf,“ sagði Sigmundur Davíð.
Samtíð - framtíð
Geta skal þess að það var Vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem hratt af stað kröfu um ívilnanir til að Húsvíkingar gætu fengið stóriðju til Bakka. Það að fyrrum formaður Vinstri grænna, Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður NA-kjördæmis og fjármálaráðherra, skyldi styðja málið og beita sér fyrir því hafði áhrif á trúverðugleika hans sem umhverfissinna samanber ýmis ummæli úr hans eigin baklandi. Steingrímur hefur sagt að sigur hafi unnist með því að ekkert hafi orðið úr risaálveri eins og allt stefndi í að myndi rísa á Húsavík og hefur nánast mátt skilja af ummælum hans að kísilverið sé einshvers konar skaðastjórnun. Orkan sem fer í PCC er jarðhitaorka, kemur mest frá Þeistareykjum, framkvæmdum fylgir mikið rask en líka mikil uppbygging, hjól efnahagslífs snúast. Í sjónvarpsþætti Kvikunnar kom fram að súmmera mætti upp hluta álitaefna við stóriðjustefnuna niður í að annars vegar takist á skammtímahagsmunir, jafnvel stundum héraðsbundnir hér á landi, tengt atvinnulífi og hagvaxtarvon við langtímahugsun, þar sem fara þurfi fram með aukinni ábyrgð út frá náttúruverndarsjónarmiðum, mengun og sjálfbærni.
Þrautseigja eða þvermóðska?
Bæjarstjóri Húsvíkinga, Kristján Þór Magnússon, sagði skömmu fyrir borðaklippinguna 17. september sl. í ræðu sinni: „Hvernig munum við tækla þær breytingar sem hér verða núna? Hver verður þróunin? Sama svarið er við öllum spurningum, nú ríður á að fóstra hið jákvæða og fagna nýju og ólíku fólki sem mun koma til okkar.“
Jón Gunnarsson þingmaður saknar hins jákvæða í umræðunni en Aðalsteinn Baldursson formaður Framsýnar segist jákvæður gagnvart umsvifum PCC. Á Þeistareykjum, suðaustan Húsavíkur, voru daginn sem klippt var á borðann á annað hundrað manns að störfum til að undirbúa orkuvinnslu vegna PCC. Aðalsteinn taldi þá að helmingur starfsmanna væri Íslendingar en stærsti einstaki hópurinn nokkrir tugir Pólverja sem meginverktakinn á Þeistareykjum flutti inn í landið með sér. Að sögn vegna þess að ekki voru til íslenskir starfskraftar til að nýta í framkvæmdirnar.
Forráðamenn PCC reikna með að bróðurpartur starfa við verksmiðjuna sjálfa verði mannaður Íslendingum en það eru ekki ódýr störf. Þau kalla á gríðarlega röskun náttúrunnar, umdeildar jarðhitavirkjanir, fjögurra milljarða króna meðgjöf hins opinbera, svokallaðar ívilnanir með sérstöku samþykki Alþingis og undanþágum frá ESA. Þrautseigja var orðið sem kom fyrir aftur og aftur í hátíðarræðum fyrirmenna PCC-daginn. Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra bar í sinni ræðu á PCC-deginum Húsavík saman við Hammerfest í Noregi og sagði að sá bær hefði verið mjög háður fiskveiðum áður en hnignun hófst. Sama mætti segja um Húsavík, útgerð var í blóma í bænum áður en kvótakerfið og aukin fjarlægð við markaði varð til þess að vægi útgerðar hefur dvínað mjög. Í stað fiskveiða hefur hvalaskoðun og ferðamennska orðið burðaratvinnuvegur hinna húsvísku sumra. Áfram hélt iðnaðaráðherra með samanburð Húsavíkur og Hammerfest. Hún sagði að norski bærinn hefði staðið frammi fyrir mjög stórum lýðfræðilegum spurningum sem vörðuðu íbúasamsetningu. Brain drain eða atgervisflótti hefði verið staðreynd í Hammerfest sem og hár aldur íbúanna. Norska ríkið hefði svo ákveðið að setja upp stóran hluta olíuiðnaðar í þessu plássi, allt samfélagið hefði gjörbreyst til hins betra.
„Ég veit í hjarta mínu að við getum skapað þessa sögu hér, við getum sagt síðar um þetta ævintýri, þetta er verkefnið sem breytti Húsavík, verkefnið sem breytti demógrafíounni, færði unga fókið aftur heim til Húsavíkur, við vitum að þau vilja koma aftur en þau þurfa sína vinnu eins og forsætisráðherra benti í ræðu sinni á,“ sagði iðnaðarráðherra og þakkaði það þrautseigju.
Saga Húsavíkur - saga Íslands?
Saga Húsavíkur gæti verið saga Íslands, saga hins íslenska stóriðjudraums. Þar hafa kynin ólíkar áherslur. Rannsóknir sýna að náttúra og umhverfisvernd standa konum í veröldinni að jafnaði nær en körlum. Þegar Hringbraut falaðist eftir viðtölum við húsvískar konur voru þær einhverra hluta vegna ófúsar til að láta hafa eitthvað eftir sér.
Í könnunum um ferðaþjónustu, iðnað og upplifun Íslendinga af því að búa á Íslandi hefur einnig komið fram kynjamunur sem mælir meiri áhuga kvenna á náttúruvernd en karla. Með grófri einföldun mætti segja að karlar vilji umfram konur „gera og skera“ samkvæmt viðhorfskönnunum en konur hugi meira að vernd. Við vinnslu þessarar fréttaskýringar sögðu sumir viðmælenda Hringbrautar og fleiri konur en karlar að þær byggðu afstöðu sína til stóriðju á huglægri upplifun sem tengdist náttúru og tilfinningum til hennar. Tilfinningarök eru rök líkt og önnur rök og ekki endilega öðrum rökum óæðri. Að standa einn í ósnortinni náttúru er í huga sumra Íslendinga engu líkt, í því felst sérstaða Íslands. Þá eru samningar um mengunarkvóta ríkja eða stórfyrirtækja á millum sagðir bera keim af firringu og skammsýni, enda hefur loftslagsmengun með upptök á Íslandi áhrif á löndin í kring og öfugt. Allt er um að ræða sama andrúmsloftið.
Mikil mengun á leiðinni
Hið svokallaða \"Íslenska ákvæði\" við Kyotobókunina byggði á sérstöðu Íslands vegna sjálfbærrar orku en efasemdir hafa komið fram um að sú orka sem við töldum áður sjálfbæra sé það til langs tíma litið. Þá hefur verið bent á að verkfræðistofur, stofnanir og vísindamenn kunni á köflum að vera undir miklum þrýstingi að reikna út „jákvæðar niðurstöður“. Kerfið geri ekki ráð fyrir að náttúran njóti vafans eins og þó yrði að vera með hagsmuni komandi kynslóða í huga. Prófessor Kristín Vala kallaði Íslendinga umhverfissóða í sjónvarpsþættinum en hún telur að að maðurinn eigi að vera móður náttúru undirgefinn en ekki öfugt.
Í Morgunblaðinu í fyrra var unnin úttekt um mengun kísilvera en þrjú slík eru nú í pípunum sem fyrr segir. Í blaðinu sagði aðí kísilveri United Silicon á Reykjanesi sé áætluð losun brennisteinsdíoxíðs (SO2) 1500 tonn á ári og að útblástur koltvísýrings sé um 360 þúsund tonn. Þá er gert ráð fyrir að í útblæstri frá verksmiðjunni verði um 130 tonn af ryki á ári, 520 tonn af köfnunarefnisoxíð (NOx) auk minna magns af öðrum efnum og málmum.
Fyrir 110 þúsund tonna framleiðslu hjá Thorsil er gert ráð fyrir að losun brennisteinsdíoxíðs verði 1950 tonn og að ryk í útblæstri nemi um 200 tonnum. Losun CO2 hjá Thorsil verður 400-600 þúsund tonn á ári.
Sólarkísilverksmiðjan sem Silicor vill reisa á Grundartanga sker sig nokkuð frá hinum vegna mun minni mengunar en kísilverið á Bakka mun losa 832.000 tonn af brennisteinsdíoxíði á ári, ryk í útblæstri verði 28 tonn og losun koltvísýrings 364.000 tonn miðað við þá vinnslustærð sem hefur verið ákveðin.
(Fréttaskýring Björn Þorláksson – [email protected])