665 milljónir til viðbótar í landbúnaðarsukkið

Ríkisstjórnin lét Alþingi samþykkja 665 milljón króna viðbótarframlag í landbúnaðarsukkið samkvæmt nýafgreiddum fjárlögum.
 
Það var hægt að finna peninga í það og það var hægt að finna 350 milljónir í viðbót til að styrkja óráðssíu stjórnmálaflokkanna.
 
En Alþingi fann ekki peninga til að bæta kjör hinna fátækustu, eins og Logi Einarsson, formaður Samfylkingar, hefur bent á. Það fundust heldur ekki peningar til að standa við skýrt kosningaloforð um afnám virðisaukaskatts á bækur.
 
Þessi þriggja Framsóknarflokka ríkisstjórn sýnir strax sitt rétta andlit með því að taka sauðfé fram yfir fólk.
 
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur á einum mánuði verið athafnarsamari en á samanlögðum ráðherraferli sínum til þessa. Hann útvegaði umrætt viðbótarframlag til sauðfjárbænda til viðbótar við þá 20 milljarða á ári sem skattgreiðendur eru látnir greiða til landbúnaðar samkvæmt búvörusamningi. Hann er búinn að leysa upp nefnd sem átti að freista þess að vinda ofan af styrkjaruglinu í landbúnaði. Hann er búinn að rifta samkomulagi við Færeyinga um fiskveiðiheimildir og hann er að undirbúa lækkun veiðigjalda í sjávarútvegi sem þó eru skammarlega lág.
 
Kristján vinnur nú allt í einu rösklega enda vita þeir sem gera hann út nákvæmlega hvað þeir vilja.
 
Kjósendur ættu að fylgjast vel með því hvernig kyrrstöðustjórnin mun gæta sérhagsmuna fyrirtækja í sjávarútvegi og landbúnaði á kostnað skattgreiðenda og neytenda.
 
Það sem þegar er komið fram er bara byrjunin.
 
Skattgreiðendur þurfa að leggja framkomu ríkisstjórnarinnar vel á minnið því einn góðan veðurdag breytast þeir í kjósendur. Þá gefst þeim tækifæri til að svara fyrir sig.
 
Rtá.