60.000 kall á tímann

 

Tímagjald slitastjórnar Glitnis hækkaði í 57 þúsund krónur í byrjun þessa árs eftir því sem fram kemur í DV. Hefur þóknunin hækkað um 250% frá árinu 2009 og námu þóknanir til slitastjórnar, sem er skipuð Steinunni Guðbjartsdóttur og Páli Eiríkssyni, 118 milljónum á fyrstu sex mánuðum ársins. Kostnaðurinn er greiddur af kröfuhöfum slitabús Glitnis.

 Kaldhæðni örlaganna er að þjóðarógæfan sem blóðugur almenningur á Íslandi hefur borið á herðum sér allt frá bankahruni skuli vera hvatinn að þessu rugli. Gildir einu þótt sumir vísi til þess að svona sé heimurinn bara og þá ekki síst á alþjóðlegum markaði. Það tekur slitastjórnendur rúma þrjá klukkutíma að vinna sér inn sömu fjárhæð og íslenskir öryrkjar fá á heilum mánuði. Með fjórðu vinnustundinni ná slitastjórnendur mánaðarlaunum þeirra lægst launuðu á atvinnumarkaði í fullu starfi. Annar vinnur 160 tíma í mánuði, hinn fjóra, heildarútkoma launa er sú sama.

 Ekki dugar að stilla upp markaðslögmálum einum og sér þegar svona tölur eru ræddar, framboði, eftirspurn, samkeppni, hæfni. Sá sem er með 60.000 kall á tímann getur svo eitt dæmi sé nefnt ekki lifað án verkamannsins sem grefur skurð þegar rafmagnskapall fer í sundur. Án rafmagnsflutninga hrynur tilvist slitastjórans. Án vinnu verkamannsins eru störf slitastjórans óhugsandi, þar með verður slitastjórinn einskis virði. Virði hans er vegið og metið vegna þess að störf annarra í kringum hann gera það kleift. En ekkert getur réttlætt 40-faldan mun. Samt er svo skrýtið að ef pólitíkus stígur fram og lækkar eigin laun, einmitt vegna hugtaksins sanngirni sem tengist þeirri jafnaðarhugsjón að lýðræði sé best borgið ef kjör borgaranna eru sem líkust, getur sá hinn sami umsvifalaust vænst þess að vera sakaður um popúlisma.

 Umræða um okur, slit og gjaldþrot er ekki ný af nálinni hér á landi. Í grein í Frjálsri verslun frá 1989 sem ber yfirskriftina „Útfararstjórar atvinnulífsins“ segir að beiðnir um gjaldþrotaskipti í Reykjavík hafi þrefaldast frá árinu 1985. Meginefni greinarinnar er að ófullkomnar reglur gildi um skipan skiptastjóra, launagreiðslur og eftirlit með störfum þeirra. Örfáir lögmenn skipti stærstu gjaldþrotamálunum á milli sín, laun skiptastjóra í stórum gjaldþrotum gátu þá numið tugum milljóna samkvæmt Frjálsri verslun.

 Ofurlaun íslensku bankastjóranna voru eftir einkavæðingu réttlætt með því að bankadrengirnir væru töframenn sem bæru framtíð Íslands á herðum sér. Sagan sýndi fram á annað. Nær væri að kalla þá fjárglæpamenn. Á meðan grefur hinn íslenski verkamaður sinn skurð af natni, kemur skítugur heim og les í blöðunum að vegna skaðans eftir bankahrunið sé ekki hægt að greiða honum hærri laun þótt slitastjórnendur maki krókinn sem aldrei fyrr á ógæfu annarra.

 Hve lengi mun verkafólk og aðrir tekjulágir hópar láta bjóða sér slíkan málflutning?