Mynd: Sigríður Margrét Oddsdóttir forstjóri Lyfju
Helmingur Íslendinga upplifir gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Hlutfallið er þó misjafnt eftir landsvæðum og telja íbúar á Suðurlandi, Suðurnesjum og Austfjörðum aðgengið verra en íbúar á öðrum landsvæðum.
Ríflega 70% Íslendinga telja sig hafa gott aðgengi að lyfjum en 60% upplifa slæmt aðgengi að sálfræðiþjónustu og er ekki munur eftir búsetu í þessum tveimur mælingum.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri rannsókn Gallup, Lyfju og samstarfsaðila sem kynnt verður á Heilbrigðisráðstefnu Gallup í Hörpu þann 6. nóvember næstkomandi.
Í rannsókninni voru lagðar áherslur á fjóra grunnþætti heilsu – andlega heilsu, hreyfingu, svefn og næringu og hvernig Íslendingar meta heilsu sína á þessum sviðum.
„Apótek á Íslandi hafa staðið sig afar vel undanfarna áratugi, bæði hefur lyfjaverð til neytenda lækkað um helming og þjónusta apóteka er góð. Á Íslandi eru fleiri apótek og fleiri starfandi lyfjafræðingar á Íslandi pr. íbúa en á hinum Norðurlöndunum, apótek eru mikilvægur hluti af heilbrigðisþjónustu á Íslandi og það er metnaður okkar hjá Lyfju að gera enn betur.“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir forstjóri Lyfju sem er einn af fyrirlesurum ráðstefnunnar.
„Þegar spurt var hvað hið opinbera ætti að leggja áherslu á til að efla heilsu Íslendinga var niðurgreiðsla eða auðveldara aðgengi að sálfræðiþjónustu hvað oftast nefnt. Að svo hátt hlutfall landsmanna upplifi slæmt aðgengi að sálfræðiþjónustu er því umhugsunarvert.“ segir Ólafur Elínarson, sviðsstjóri markaðsrannsókna Gallup.