537,3 fermetra höll er til sölu en einbýlishúsið er á tveimur hæðum. Það er byggt árið 1917. Þar eru 16 herbergi, tvö baðherbergi, svalir, garður, kjallari. Eignin stendur á glæsilegum útsýnisstað á hæsta punkti á einni fallegustu eyju Íslands, sjálfri Hrísey. Tryggvi Gunnarsson fasteignasali hjá Eignaveri segir í samtali við Hringbraut að óskað sé eftir tilboðum í þetta höfuðból Hríseyinga en hans tilfinning er að verðmatið hlaupi á bilinu 35 til 40 milljónir.
„Þetta er tignarlegt hús sem má muna sinn fífil fegri en er það hús sem stendur hæst á eyjunni ef vitinn er ekki talinn með. Það þarf að gera eitt og annað fyrir húsið en hafi nýr eigandi tök á að ráðast í fullar endurbætur eignast hann líklega virðulegasta hús í öllum Eyjafirði. Útsýnið er ótrúlegt, alveg magnað.“
Þó að ráðast þurfi í verulegar lagfæringar er hægt að flytja inn strax . Eigandi hefur leigt það út og þá hafa listamenn sem heimsótt hafa eyjuna fengið að gista í húsinu. Rithöfundurinn Hallgrímur Helgason sem á hús í Hrísey hvetur fólk á Facebook til að kaupa húsið. Hann segir:
„Höfuðból Hríseyinga, sjálfur Syðstibær, er komið á sölu. Kjörið tækifæri fyrir smíðaglatt menningarfólk að finna aftur karakterinn í þessu glæsihúsi og stofna þarna lýðháskóla, hótel, listamannasel, heilsubæli, jógaból, fræðahöll eða skoðunarhvalasetur fyrir skoðunarhvali að koma úr kafi og fara í detox og samfélagsmiðlabann.“
Í lýsingu á eigninni segir að neðri hæð, sem er 295,8 fermetrar, skiptist í forstofu, tvö hol, fimm svefnherbergi, stofa, eldhús, baðherbergi, þvottahús og búr. Sérgeymslur og sameiginleg rými í sameign hússins. Þá er þar einnig að finna útihús og geymslu.
Um efri hæð segir: „241,5 fm. Eignin skiptist í forstofu, gangur, fimm svefnherbergi, stofur, eldhús, baðherbergi, þvottahús og búr. Sérgeymslur og sameiginleg rými í sameign hússins.“
Hér má sjá myndir af húsinu en frekari upplýsingar má finna hér.