\"Nýlega var bent á að forfeður okkar á veiði- og söfnunartímabilinu (fyrir um 10 þúsund árum) unnu aðeins í þrjár klukkustundir á dag, 21 klukkustund á viku. Mannfræðingar halda því fram að mannkynið hafi aldrei verið eins hamingjusamt og þá.\"
Þetta skrifar athafnamaðurinnThomas Möller í nýjasta pistli sínum á hringbraut.is, en hann gjörþekkir rekstur fyrirtækja hér á landi - og bendir á að fyrir Alþingi liggi nú fyrir tillaga að styttingu vinnuvikunnar í 35 klukkustundir og talað um það sem framfarir!
Hann leggur út af fræðum Tim Ferriss sem fann það út að í rekstri hans litla fyrirtækis tókst honum að stytta vinnutíma sinn úr 80 klukkustundum á viku í fjórar með því að vinna eitt mikilvægt verkefni í einu og fela öðru starfsfólki önnur verk: \"Það er þekkt staðreynd að við Íslendingar vinnum um 20% fleiri vinnustundir en nágrannaþjóðirnar til að ná svipuðum lífsgæðum,\" skrifar Thomas og minnir á algildar klisjur eins og “honum féll ekki verk úr hendi og vann eins og hestur alla tíð” sem eru jú algeng eftirmæli um hinn sístritandi Íslending.
Í pistli sínum bendir Thomas á nýlegar rannsóknir sem sýni að um 36% vinnutíma fólks er varið í verkefni sem skila litlum sem engum árangri eða eru ekki í takt við stefnu fyrirtækisins eða stofnunarinnar: \"Brandarinn um “hvað vinna margir hér”?.......”svona helmingurinn” er kannske ekki eins vitlaus og hann hljómar,\" bendir Thomas á og telur að flest okkar geti unnið vinnuna með agaðri hætti, t.d. með því að forgangsraða verkefnum betur og vinna betur sem ein heild á vinnustaðnum: \"Lykillinn að árangri felst í góðum “fókus”, að einbeita sér að því mikilvæga og dreifa kröftunum ekki of mikið,\" segir hann ennfremur.
Þetta náist líka með því að einfalda vinnuferla, minnka fundarhöld, halda bara standandi fundi og fækka minnisblöðum og stytta þau, fækka glærum í kynningum, stytta starfsmannasamtölin og forðast alla óþarfa skriffinnsku og skrifstofupólitík: \"Þetta hefst líka með því að minnka áreiti í vinnunni, fækka ruslpóstum, auka sjálfvirkni og deila verkefnum innan fyrirtækisins til þeirra sem eru hæfastir til þess og sumum tilfellum til viðskiptavinanna sjálfra eins og bankarnir, bensínstöðvarnar, hótelin og flugfélögin eru að gera,\" skrifar Thomas í þesum nýjasta pistli sínum og klikkir þar út með uppörvandi þanka: \"Hugsanlega er fjögurra tíma vinnuvikan hans Tim Ferriss fjarlægt markmið en við getum örugglega bætt okkur á þessu sviði.\"