Hátt í 3.000 skammtar af bóluefni við mislingum voru notaðir á heilsugæslustöðvum um helgina og í síðustu viku. Von er á meira af bóluefni í dag. Að sögn Ragnheiðar Óskar Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, gengu bólusetningar vel þrátt fyrir stuttan viðbragðstíma.
Ragnheiður Ósk var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun. Að hennar sögn hafi tekist að skipuleggja bólusetningarnar vel þrátt fyrir skamman viðbragðstíma.
Byrjað var á að leggja áherslu á ung börn sem væru óbólusett en mættu fá bólusetningu. „Það eru börn á aldrinum 6-18 mánaða. Það var hópur númer 1. Og síðan eru það þeir sem eru óbólusettir fæddir eftir 1970. Við gerum ráð fyrir að þeir sem eru fæddir fyrir 1970 hafi fengið mislinga,“ segir Ragnheiður Ósk. Venjulega eru börn bólusett fyrir mislingum 18 mánaða og svo aftur 12 ára. „
Ragnheiður Ósk segir undirbúning hafa hafist á föstudaginn. „Á innan við klukkutíma gátum við virkjað allar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu, alls 19 talsins, þannig að þær myndu hafa opið núna um helgina í þrjá tíma hvorn dag.“
2.000 skammtar af bóluefni bárust fyrir helgi og kláruðust þeir nánast allir yfir helgina. „Og meira til. Við vorum strax byrjuð að bólusetja á miðvikudeginum, fimmtudeginum og föstudeginum. Mér telst til að hátt í 3.000 skammtar hafi farið á þessum dögum.“ Allar heilsugæslustöðvarnar héldu þó eftir nokkrum skömmtum enda hafa verið pantaðir tímar fyrir börn sem þurfa bólusetningu í þessari viku.